Lífið

Græneðla gægðist upp úr klósettinu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þegar Michelle Reynolds kom inn í baðherbergið blasti græneðlan við henni í klósettskálinni.
Þegar Michelle Reynolds kom inn í baðherbergið blasti græneðlan við henni í klósettskálinni. Skjáskot

Kona í Flórída fékk óvæntan gest á baðherbergi sitt á laugardagskvöld þegar græneðla kom upp úr klósettinu hjá henni. Kalla þurfti á sérfræðing til að fjarlægja græneðluna en dýrategundin hefur náð fótfestu í ríkinu eftir að fólk flutti þær inn sem gæludýr á sjöunda áratugnum.

Michelle Reynolds sagði í samtali við fréttamiðilinn WSVN að á laugardagskvöld hafi hún ákveðið að fá sér snarl og eftir að hafa sett poppkorn í örbylgjuofninn fór hún á baðherbergið. Þegar hún hafi opnað dyrnar að baðherberginu hafi hún snúið sér við um leið eftir að hafa séð „fyrirbæri“ í klósettinu.

Kalla þurfti til sérfræðing til að fjarlægja græneðluna úr baðherbergi Reynolds.Skjáskot

Þetta fyrirbæri reyndist græneðla, þekkt sem iguana á ensku. Þar sem græneðlunni var ófært um að koma sér út úr húsinu þurfti Reynolds að hringja í Harold Rondon hjá Iguana Lifestyles, þjónustu sem sérhæfir sig í að flytja og fjarlægja græneðlur og önnur villt dýr.

Rondon segist hafa þurft að fjarlægja þónokkrar græneðlur úr íbúðarhúsnæði í Suður-Flórída á þessu ári og þar af væri þetta önnur græneðlan sem hann þurfti að fjarlægja í þessari viku.

Græneðlur eru ekki innfædd dýrategund í Flórída en eru orðnar algengar í ríkinu eftir að fólk flutti þær inn sem gæludýr á sjöunda áratugnum. Græneðlur eru ekki hættulegar mönnum en geta borið salmonella.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×