Sigurður, sem er fyrrverandi starfsmaður Morgan Stanley bankans í London til margra ára, seldi tæplega 6,2 prósenta eignarhlut sinn í Bláa lóninu til félags í eigu fjórtán lífeyrissjóða – Blávarma – fyrir 25 milljónir evra, jafnvirði um 3,75 milljarðar króna á þáverandi gengi, eins og Innherji greindi frá á sínum tíma. Bláa lónið, sem er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, var því verðmetið á samtals liðlega 61 milljarð króna í viðskiptunum.
Mikill meirihluti söluandvirðisins var bókfærður sem hagnaður, eins og upplýst er um í nýlegum ársreikningi Saffron Holding, en félagið skilaði hagnaði upp á samtals nærri 2,9 milljarða króna á árinu 2021. Eigið fé stóð í 2,8 milljörðum í lok ársins og var félagið skuldlaust.
Skömmu áður en Sigurður kláraði sölu á sínum bréfum í Bláa lóninu til Blávarma, sem er í dag næst stærsti hluthafi fyrirtækisins með rúmlega 36 prósenta hlut, hafði Helgi Magnússon, fjárfestir og aðaleigandi útgáfufélags Fréttablaðsins, selt allan sinn eignarhlut – sem jafnframt nam tæplega 6,2 prósentum – til fjárfestingafélagsins Stoða. Helgi seldi hlut sinn á lítillega lægra verði en í tilfelli Sigurðar en þeir höfðu báðir verið í hluthafahóp Bláa lónsins í vel á annan áratug.
Stoðir héldu áfram að bæta við eignarhlut sinn í félaginu síðar á árinu með kaupum á bréfum af minni hluthöfum og var fjárfestingafélagið komið með samtals 7,3 prósenta hlut í Bláa lóninu undir árslok 2021.
Sigurður var í gegnum félagið Saffron Holding í byrjun þessa árs skráður fyrir fjögurra prósenta óbeinum eignarhlut í útgáfufélagi Fréttablaðsins, Torg, sem rekur miðla undir merkjum Fréttablaðsins, DV og Hringbrautar. Þá hefur Saffron Holding einnig á síðustu árum verið á meðal stærri hluthafa Íslenskra verðbréfa með nærri fimm prósenta hlut en félagið seldi fyrir skemmstu, eins og Innherji greindi frá í gær, allan þann hlut til Bjargar Capital, stærsta hluthafans í verðbréfafyrirtækinu.
Á síðasta ári nam tap Bláa lónsins 4,8 milljónum evra, jafnvirði um 710 milljóna króna, borið saman við tap upp á 21 milljón evra á árinu 2020. Tekjur félagsins jukust um 46 prósent á milli ára og voru samtals 48 milljónir evra. Þá var hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) um 2,14 milljónir evra en á árinu 2020 var rekstrarafkoman neikvæð um 12,6 milljónir evra. Eigið fé félagsins stóð í tæplega 55 milljónum evra í árslok 2021 og eiginfjárhlutfallið í 37 prósent.
Bláa lónið var lokað í samfellt átta mánuði, frá október 2020 til júní 2021, en fyrr á árinu 2020 hafði lóninu verið lokað í um þrjá mánuði.
Stærsti hluthafi Bláa lónsins, með 39,6 prósenta hlut, er samlagshlutafélagið Hvatning en stærsti eigandi þess með 60 prósenta hlut er eignarhaldsfélagið Kólfur, sem Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins fer með forræði yfir, á meðan framtakssjóður í rekstri Landsbréfa heldur hins vegar á tæplega 40 prósenta hlut.