Handbolti

Ólík hlutskipti gestgjafanna á HM í handbolta

Árni Jóhannsson skrifar
Fredric Pettersson gæti haft það þægilegt framan af HM 2023
Fredric Pettersson gæti haft það þægilegt framan af HM 2023 GETTY IMAGES

Í dag var dregið í riðla fyrir HM í handbolta sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi í janúar á næsta ári. Það má með sanni segja að hlutskipti gestgjafanna séu mjög ólík en Svíar eiga sigur í sínum riðli næsta vísan.

Svíar leika í C riðli sem verður leikinn í Gautaborg og eru andstæðingar þeirra Brassar og Úrúgvæar frá Suður Ameríku og svo liðið sem mun lenda í öðru sæti á Afríkumótinu í handbolta sem leikið verður dagana 11. til 18. júlí. 

Svíar náðu þar með að sleppa við að mæta Evrópuþjóðum, sem taldar eru sterkari en frá öðrum heimsálfum, og eiga sigurinn í sínum riðli næsta vísan. Svíþjóð eru ríkjandi Evrópumeistarar og lentu í öðru sæti á HM í Egyptalandi árið 2021. Raungerist það að Svíar klári sinn riðil þá munu þeir fara í milliriðil númer tvö og geta þar mætt Íslendingum fari það svo að Ísland komist upp úr sínum riðli.

Pólverjar voru ekki jafn heppnir með sína mótherja. Þeir leika sína leiki í Katowice og eru í B riðli mótsins og mæta þar Frökkum, Sádi Arabíu og Slóvenum. Þeir sluppu svo sannarlega ekki við Evrópuþjóðirnar en Frakkar eru að sjálfsögðu stórveldi í handboltanum. Ekki nema sexfaldir heimsmeistarar og þrefaldir Evrópumeistarar. Þá eru Slóvenar sterkt lið en þeir hafa náði í bronsverðlaun á HM 2017 í Frakklandi og silfur á EM 2004.

Pólverjar geta þó væntanlega sætt sig við að Sádi Arabía séu með þeim í riðli einnig þannig að möguleikinn á að komast upp úr riðlinum er fyrir hendi en það verður þá spurning með hversu mörg stig með sér. Fari Pólverjar í milliriðil þá lenda þeir í Milliriðli 1 sem mun væntanlega innihalda Spánverja og Svartfellinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×