Fótbolti

Óttar Magnús lék allan leikinn í tapi

Árni Jóhansson skrifar
Óttar Magnús fór mikinn í háloftunum sem og á grasinu í nótt.
Óttar Magnús fór mikinn í háloftunum sem og á grasinu í nótt. Twitter@oaklandrootssc

Oakland Roots, sem Óttar Magnús Karlsson leikur með, heimsótti LA Galaxy II í USL deildinni í knattspyrnu í nótt. Roots laut í gras 3-1 og þurfti að leika seinni hálfleikinn manni færri.

Óttar byrjaði og spilaði allan leikinn eins og hann gerir alla jafna og þótti standa sig vel en hann skapaði eitt stórt færi og vann fimm af sex skallaeinvígjum sem hann fór í. Leikurinn var markalaus í hálfleik en þegar komið var í uppbótartíma í fyrri hálfleik þá misstu Roots mann af velli þegar Charlie Dennis fékk seinna gula spjaldið sitt. 

Róðurinn þyngdist fyrir Roots í seinni hálfleik og eftir 11 mínútna leik voru LA Galaxy II komnir tveimur mörkum yfir. Roots náði að klóra í bakkann og gáfu smá von um endurkomu þegar Juan Azocar skoraði mark eftir hornspyrnu en Óttar Magnús kom við sögu í markinu. Óttar hoppaði upp með markverðinum eftir að hornspyrna var tekin og datt boltinn fyrir fætur Azocar sem smellhitti boltann í netið.

LA Galaxy II gerði svo út um leikinn þegar þriðja markið var skorað mínútu eftir að Roots komust á blað og lokatölur 3-1. Mörk LA Galaxy II gerðu þeir Rémi Cabral, Cameron Dunbar og Preston Judd. 

Eftir leikinn er Oakland Roots í níunda sæti Vesturdeildar USL deildarinnar með 24 stig. Galaxy II fór upp í sjötta sætið og er með 27 stig en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×