Erlent

Á sjálfsvígsvakt eftir dóminn vegna frægðar sinnar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Söngvarinn var á dögunum dæmdur í þrjátíu ára fangelsi.
Söngvarinn var á dögunum dæmdur í þrjátíu ára fangelsi. AP/Antonio Perez

Söngvarinn R. Kelly hefur verið settur á sjálfsvígsvakt í fangelsinu sem hann dvelur í. Hann var dæmdur í þrjátíu ára fangelsi á miðvikudaginn fyrir að nota frægð sína til að þvinga unga aðdáendur til samræðis og beita þá markvissri kynferðislegri misnotkun.

Lögfræðingur R. Kelly, Jennifer Bonjean, staðfestir við CNN að búið sé að setja söngvarann á sjálfsvígsvakt. Hann sé þó ekki í sjálfsvígshugleiðingum.

„Það er kaldhæðnislegt að setja einhvern á sjálfsvígsvakt þegar þeir eru ekki í sjálfsvígshugleiðingum því það gerir þeim meiri skaða,“ segir Bonjean. Hún telur að hann sé vaktaður vegna frægðar hans. „Þetta er refsing fyrir að vera frægur. Og það er óhugnanlegt.“

Saksóknarar lögðu til að Kelly yrði dæmdur í 25 ára fangelsi í ljósi alvarlegra glæpa sinna og nauðsynjar þess að vernda almenning gegn frekari glæpum. Lögmenn Kelly færðu hins vegar rök fyrir því að hann ætti ekki að fá meira en tíu ára dóm.

„Þú lést mig gera hluti sem brutu mig. Ég bókstaflega óskaði þess að ég myndi deyja vegna þess hve smárri þú lést mér líða,“ sagði nafnlaust fórnarlamb við réttarhöldin en R. Kelly. tjáði sig sjálfur ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×