Innlent

Leggur fram frumvarp í haust um víðtækar rannsóknarheimildir lögreglu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra mun í haust leggja fram frumvarp um víðtækar rannsóknarheimildir lögreglu. Lögregla mun meðal annars fá víðtækari heimildir til að afla upplýsinga til að meta ógn af hryðjuverkum og segir Jón þær verða í takt við það sem gengur og gerist í nágrannaríkjum Íslands.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu. Þar segir að Jón sé sammála Runólfi Þórhallssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, um að rýmka þurfi heimildir lögreglu miðað við núverandi heimsmynd.

Þá sé mikilvægt að samræma rannsóknarheimildir lögreglunnar á Íslandi við heimildir lögreglu í samstarfsríkjum.

„Bæði til að upplýsingar geti gengið greiðar á milli og til þess að íslenska lögreglan geti aflað þeirra upplýsinga sem hún þarf til að geta veitt þær þessum samstarfsaðilum okkar og tekið þátt í þessu samstarfi af fullum krafti og þunga,“ segir Jón við Morgunblaðið.

Hann segir eðlilegt að samhliða verði eftirlit með lögreglu eflt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×