Íslenski boltinn

Yfir­gefur Fram og fer til föður síns í Þorpinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexander Már Þorláksson og Jón Sveinsson, þjálfari Fram. Alexander Már mun halda til Akureyrar þegar félagaskiptaglugginn opnar.
Alexander Már Þorláksson og Jón Sveinsson, þjálfari Fram. Alexander Már mun halda til Akureyrar þegar félagaskiptaglugginn opnar. Fram

Framherjinn Alexander Már Þorláksson hefur samið við Þór Akureyri í Lengjudeildinni og mun færa sig um set þegar félagaskiptaglugginn opnar á næstu dögum. Hann kemur frá Fram í Bestu deildinni þar sem tækifæri hafa verið af skornum skammti.

Þórsarar greindu frá félagaskiptunum á samfélagsmiðlum sínum. Þar kemur fram að Alexander Már muni yfirgefa Fram um leið og félagaskiptaglugginn opnar þann 29. júní næstkomandi.

Athygli vekur að Þorlákur Árnason, faðir framherjans, er þjálfari Þórs. Á Alexander Már að fylla skarðið sem Je-wook Woo skilur eftir sig en sá gekk í raðir Þórs fyrir tímabilið. Fótbolti.net greindi frá að Woo hafi þurft að halda heim á leið vegna meiðsla og fjölskylduaðstæðna.

Alexander Már hefur spilað með Fram í Bestu deildinni í sumar og þar áður í Lengjudeildinni. Skoraði framherjinn sjö mörk í 17 leikjum er liðið gjörsigraði Lengjudeildina síðasta sumar.

Hann hefur komið víða við og spilað með ÍA, Hetti og KF ásamt því að spila fyrir Fram undanfarin ár. Alls hefur Alexander Már skorað 17 mörk í 40 leikjum í Lengjudeildinni en hann er einn fárra Íslendinga sem hefur skorað í efstu fjórum deildum Íslandsmótsins.

Alexander Már skilur við Fram í 8. sæti Bestu deildarinnar með 10 stig að loknum 10 leikjum. Þór Ak. er hins vegar í 10. sæti Lengjudeildarinnar með fimm stig að loknum sjö leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×