Erlent

Aðstandendur hljóti meira en milljarð Bandaríkjadala í bætur

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Bótaupphæð hefur verið ákveðin.
Bótaupphæð hefur verið ákveðin. EPA/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH

Degi áður en eitt ár er liðið frá hruni hluta tólf hæða íbúðarhúss við ströndina í Miami er bótaupphæð til fjölskyldna fórnarlamba slyssins ákveðin. Heildarupphæð bótanna nemur 1,02 milljarði Bandaríkjadala.

Hluti íbúðarhússins hrundi þann 24. júní 2021 en sjónarvottar lýstu því að að hluti af steypuplötunni yfir bílastæðakjallaranum, sem á voru bílastæði og sundlaugarsvæði á jarðhæð, hafi fyrst fallið saman nokkrum mínútum áður en hluti byggingarinnar hrundi til grunna.

Dómarinn í málinu sagði bæturnar aldrei verða nægar til þess að græða missinn en þessi bótaupphæð sé það besta sem hægt sé að bjóða aðstandendum fórnarlamba slyssins. Þetta kemur fram í umfjöllun Guardian um málið.

Verktaki frá Dubai sem hyggst kaupa lóðina sem íbúðarhúsið stóð á studdi bótafjárhæðina um 120 milljónir Bandaríkjadala.

Slysið er eitt það mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna ef litið er til samskonar óhappa en 98 einstaklingar létust í slysinu.


Tengdar fréttir

Búið að bera kennsl á þann síðasta sem dó

Búið er að bera kennsl á þann síðasta af 98 sem dóu þegar hluti fjölbýlishúss hrundi í bænum Surfside á Flórída þann 24. júní síðastliðinn. Estelle Hedaya var sú síðasta sem var á lista yfir þá sem hefur verið saknað frá því húsið hrundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×