Skoðun

Mat­væla­verð hækkar hratt

Erna Bjarnadóttir skrifar

Vaxtahækkun Seðlabankans þann 22. júní er harkaleg áminning um að verðbólgudraugurinn ríður nú húsum í hagkerfinu. Þessi verðbólga er þó fjarri því að vera séríslenskt vandamál. Öll vesturlönd glíma nú við svipaðan verðbólguvanda. Hér á landi er hins vegar það sérvandamál að hækkanir á húsnæðisverði eiga ríkan þátt í verðbólgunni þótt verð á öðrum vörum og þjónustu sé einnig á uppleið.

Í verðbólgunni verður fjölmiðlum iðulega starsýnt á hækkanir á matvælaverði, enda finna allar fjölskyldur landsins fyrir þeim. Sumir fjölmiðlar reyna stundum að gera íslenskan landbúnað að sérstökum blóraböggli í þessu efni. Sannleikurinn er hins vegar sá að í þeirri verðbólgugusu sem nú stendur yfir hafa landbúnaðarvörur á Íslandi hækkað minna en erlendis.

Einfaldast er að bera saman þróunina í Danmörku og á Íslandi þar sem upplýsingar frá hagstofum beggja landa eru settar fram með nokkuð sambærilegum hætti. Í meðfylgjandi töflu má lesa um þær hækkanir sem orðið hafa sl. 12 mánuði á vísitölu neysluverðs (VN) og undirvísitölum nokkurra matvæla. Almenn verðbólguþróun á Íslandi síðastliðna 12 mánuði hefur verið hefur verið mjög svipuð og í Danmörku. Hér á Íslandi hækkaði VN um 7,6% frá maí 2021 til maí 2022 en um 7,4% í Danmörku.

Þegar litið er á breytingar á matvöruverði blasir hins vegar önnur mynd við. Matur og drykkjarvörur hækkuðu um 10,1% í Danmörku en 6,2% á Íslandi. Kjöt hækkaði um 12% í Danmörku en 8,5% á Íslandi, mjólk um 18,3% í Danmörku en 11,9% á Íslandi og ostar um 16,7% í Danmörku en 8,1% á Íslandi. Svipuð hækkun var hins vegar á verði eggja í báðum löndunum.

Þessi litla greining dregur glöggt fram að verðþróunin á Íslandi er fjarri því að vera einsdæmi og hér á landi hefur raunar gengið betur, a.m.k. enn sem komið er að halda aftur af verðhækkunum á landbúnaðarvörum. Samanburðurinn við hið mikla landbúnaðarland, Danmörku, gefur til kynna að væru helstu landbúnaðarafurðir fluttar inn en ekki að mestu leyti framleiddar hér á landi hefðu verðhækkanirnar hugsanlega verið mun meiri.

Höfundur er verkefnisstjóri hjá Mjólkursamsölunni.




Skoðun

Sjá meira


×