Fossar högnuðust um 526 milljónir króna á árinu 2021, sem var nærri þreföldun frá fyrra ári, og stóð eigið fé félagsins í 775 milljónum í lok síðasta árs.
Áður en ráðist var í hlutafjáraukninguna í liðnum mánuði var hlutafjárflokkum félagsins fækkað úr tveimur í einn – B-flokkurinn felldur út og hlutaféð borgað út til hluthafa – og greiddur út arður til eigenda að fjárhæð 515 milljónir króna. Hlutafjárhækkunin, sem var gerð í því skyni að tryggja að Fossar hefðu borð fyrir báru miðað við þau lágmarksskilyrði sem félagið þarf að uppfylla um eigið fé sem fjárfestingabanki, fór fram á genginu 3,77 krónur á hlut að nafnverði þar sem horft var til innra virðis hlutafjár um síðustu áramót.
Stærsti hluthafi fjárfestingabankans er félagið Fossar Markets Holding með 79 prósenta hlut sem er að meirihluta í eigu hjónanna Sigurbjörns Þorkelssonar og Aðalheiðar Magnúsdóttur. Aðrir eigendur Fossar Markets Holding eru Haraldur I. Þórðarson, forstjóri Fossa, og Steingrímur Arnar Finnsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta fjárfestingabankans, en þeir fara einnig hvor um sig með liðlega fimm prósenta hlut í Fossum í gegnum sín eigin eignarhaldsfélög.
Aðrir hluthafar Fossa, sem eru þá samanlagt með tæplega 11 prósenta hlut, eru starfsmenn og stjórnendur bankans.
Innherji greindi frá áformum Fossa, sem hafa verið á meðal leiðandi verðbréfafyrirtækja frá því að félagið hóf starfsemi árið 2015, um að verða fjárfestingabanki í desember í fyrra en félagið hafði þá nýlega skilað inn umsókn til fjármálaeftirlits Seðlabankans þar sem óskað var eftir slíku leyfi. Í byrjun þessa mánaðar tilkynntu Fossar síðan um að félagið hefði fengið leyfi fjárfestingabanki. Félagið er fimmti bankinn sem er starfræktur hér á landi en aðrir bankar – Arion, Íslandsbanki, Landsbankinn og Kvika – eru hins vegar allir með starfsleyfi sem viðskiptabankar.
Með því að breyta rekstrarformi Fossa, sem var fyrir með starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki, fyrirtækjaráðgjöf og eins á sviði eignastýringar, í fjárfestingabanka fær félagið mun víðtækari starfsheimildir en áður. Heimildirnar eru í megindráttum þær hinar sömu og ná til starfsemi viðskiptabanka að því undanskildu að Fossum verður ekki heimilt að taka á móti innlánum.
Sem fjárfestingabanki munu Fossar þannig meðal annars geta gefið út víxla eða skuldabréf, átt viðskipti fyrir eigin reikning og þá verður þeim eins heimilt að stunda lánastarfsemi. Með nýja starfsleyfinu fær fyrirtækið auknar heimildir til útlána og meiri getu til framvirkra viðskipta með verðbréf og gjaldeyri. Þá bætast Fossar við í hóp aðalmiðlara með ríkisverðbréf og viðskiptavakt þeirra á eftirmarkaði. Aðalmiðlurum með ríkisverðbréf er boðið upp á endurhverf viðskipti hjá Seðlabankanum.
Fossar hafa aukið umsvif sín talsvert á síðustu misserum, til dæmis með stofnun eignastýringarsviðs á síðasta ári. Einnig stóðu Fossar að stofnun sjóðastýringarfyrirtækisins Glyms eignastýring, ásamt Guðmundi Björnssyni, sem mun leggja áherslu á sérhæfðar fjárfestingar auk sérvalinna fjárfestinga fyrir fagfjárfesta.
Á síðasta ári voru Fossar umfangsmestir í tilkynntum viðskiptum með bæði skuldabréf og hlutabréf og námu þóknanatekjur félagsins samtals ríflega 1,5 milljörðum og jukust um 600 milljónir milli ára. Nam hlutdeildin 21,1 prósenti í skuldabréfum og 25,5 prósentum í hlutabréfum.
Á síðustu mánuðum hefur dregið verulega úr veltu með bæði skráð hlutabréf og skuldabréf samtímis miklum verðlækkunum í Kauphöllinni.