Kaupandi að bréfunum, eins og Innherji hefur áður greint frá, var Lífsverk en lífeyrissjóðurinn fer í dag með tæplega 5,6 prósenta eignarhlut í Loðnuvinnslunni. Sjóðurinn keypti þann hlut fyrir milligöngu verðbréfamiðlara á fyrri helmingi ársins 2021 – helsti seljandinn var þá VÍS – og nam kaupverðið samtals um 628 milljónum króna.
Miðað við kaupverðið á hlutnum í Loðnuvinnslunni útgerðarfyrirtækið því metið á rúmlega ellefu milljarða króna í viðskiptunum. Í árslok 2021 hafði virði 5,6 prósenta eignarhlutar Lífsverks í fyrirtækinu hins vegar hækkað nokkuð og var hann þá bókfærður á 702 milljónir í reikningum Lífsverks. Loðnuvinnslan var á þeim tíma því metin á rúmlega 12,5 milljarða króna.
Heildartekjur Loðnuvinnslunnar, sem rekur fiskimjölsverksmiðju, frystihús, síldarsöltun og gerir meðal annars út ísfisktogarann Ljósafell, námu um 12,5 milljörðum króna á árinu 2021 og jukust um 600 milljónir milli ára, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi.
Hagnaður félagsins tæplega tvöfaldaðist í fyrra og var samtals um 1.250 milljónir króna eftir skatta. Þar munaði miklu um að gengismunur var jákvæður um 404 milljónir en var neikvæður á árinu 2020 um 876 milljónir. Eigið fé í árslok 2021 var um 11,55 milljarðar og eiginfjárhlutfallið stóð í 48 prósentum. Ársverk voru 183 talsins á árinu 2021.
Loðnuvinnslan er með um 1,7 prósenta hlutdeild í úthlutuðum aflaheimildum á meðal íslenskra útgerðarfyrirtækja.
Í árslok 2021 var Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga langsamlega stærsti hluthafinn með rúmlega 83 prósenta hlut en það er í dreifðri eigu 355 heimamanna. Þar á eftir kemur Lífsverk með 5,57 prósenta hlut, Sjóva með 3,6 prósenta hlut en Stapi lífeyrissjóður fer fyrir 1,7 prósent.