Fótbolti

Pérez: Mbappé breytti draumi sínum vegna pólitísks þrýstings

Valur Páll Eiríksson skrifar
Pérez lét gamminn geysa í viðtali í gær.
Pérez lét gamminn geysa í viðtali í gær. Samuel de Roman/Getty Images

Florentino Pérez, forseti Real Madrid, tjáði sig um málefni franska framherjans Kylian Mbappé í gær. Mbappé var nálægt því að ganga til liðs við spænska stórveldið áður en honum snerist hugur.

Samningur Mbappé við félag hans, Paris Saint-Germain, átti að renna út í sumar og mátti Real Madrid ræða við hann um vistaskipti frá 1. janúar, þegar sex mánuðir voru til loka samningsins. Mbappé var látlaust orðaður við Real Madrid í vor og fátt virtist geta stöðvað flutninga hans til spænsku höfuðborgarinnar. 

Allt þar til hann virðist hafa tekið U-beygju og endursamdi við Parísarliðið undir lok síðasta mánaðar.

Florentino Pérez, forseti Real Madrid, var til viðtals í spænska sjónvarpsþættinum El Chiringuito í gærkvöld þar sem hann segir tvö ríki hafa beitt hann miklum þrýstingi og í raun snúið upp á höndina á honum.

„Mbappé sveik ekki neinn. Draumur hans var að koma til Madríd, hann keypti alltaf treyjurnar okkar, en aðstæður breyttust vegna pólitískrar og fjárhagslegrar pressu. Að lokum sættum við okkur við það að Mbappé vildi ekki koma, hann breytti draumi sínum,“

„Ég kann enn að meta Mbappé, að sjálfsögðu. Mamma hans vildi að hann kæmi til Madrídar, vegna þess að það er draumur sonar hennar. Hún var leið,“

„En ég held að þeir hafi ruglað hann í ríminu. Ég trúði honum og hans draumi, en stundum rætast draumar ekki. Tvö mismunandi ríki þrýstu á Mbappé og þeim tókst að rugla hann,“ segir Pérez.

Hann vísar þar til Frakklands og Katar. PSG er í eigu fjárfestingasjóðs Katar og þá hefur Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, viðurkennt að hafa ráðlagt Mbappé að halda kyrru fyrir í heimalandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×