Innherji

Tekjuvöxtur hjá móðurfélagi Heimkaupa en tapið fimmfaldaðist

Ritstjórn Innherja skrifar
Tap á rekstri Wedo, sem er meðal annars móðurfélag Heimkaupa, jókst um meira en 600 milljónir króna á síðasta ári.
Tap á rekstri Wedo, sem er meðal annars móðurfélag Heimkaupa, jókst um meira en 600 milljónir króna á síðasta ári.

Tekjur Wedo, móðurfélag Heimkaupa, Hópkaupa og Bland.is, héldu áfram að aukast mikið á árinu 2021 og námu samtals rúmlega 3,1 milljarði króna. Vöxturinn á milli ára var um 36 prósent. Á sama tíma jókst hins vegar tap félagsins verulega og var um 781 milljón króna eftir skatt borið saman við 169 milljóna króna tap á árinu 2020.

Í ársbyrjun 2022 var hlutafé Wedo aukið um 500 milljónir að nafnverði á genginu 1 króna á hlut.

Skel fjárfestingafélag, sem átti 25 prósenta hlut í Wedo í árslok 2021 í gegnum dótturfélagið Orkan IS, var á meðal þeirra hluthafa sem tóku þátt í hlutafjáraukningunni með fjárfestingu upp á 222 milljónir og fer í kjölfarið með um þriðjungshlut. Aðrir stórir hluthafar í vefverslanafélaginu eru meðal annars Norvik, fjárfestingafélag Jóns Helga Guðmundssonar, og Draupnir fjárfestingafélag, sem er félag Jóns Diðriks Jónssonar, eiganda Senu.

Eftir hlutafjáraukninguna kom Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs, nýr inn í stjórn Wedo.

Í skýrslu stjórnar með nýbirtum ársreikningi Wedo kemur fram að uppfærðar rekstraráætlanir geri ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu á árinu 2024.

Á síðasta ári voru ársverk hjá Wedo um 72 talsins borið saman við 44 á árinu 2020. Launakostnaður félagsins nærri tvöfaldaðist á milli ára og var um 932 milljónir króna.

Pálmi Jónsson, sem hafði fyrr í vetur tekið við stöðu rekstrarstjóra Wedo, var fyrir skemmstu ráðinn forstjóri félagsins. Tók Pálmi, sem var framkvæmdastjóri Emmessíss frá árinu 2019 þar til í maí 2021 þegar hann hætti, við starfinu af Hjalta Baldurssyni sem hafði verið forstjóri til bráðabirgða. Þá var Anna Jóna Aðalsteinsdóttir, sem var áður fjármálastjóri Hagkaups, sömuleiðis ráðinn sem fjármálastjóri félagsins.


Tengdar fréttir

Skeljungur bætti við hlut sinn í móðurfélagi Heimkaupa

Skeljungur er kominn með þriðjungshlut í Wedo ehf., móðurfélagi Heimkaupa, Hópkaupa og Bland.is, eftir að hafa tekið þátt í hlutafjáraukningu félagsins í janúar. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Skeljungs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×