Frá þessu var greint í tilkynningu til bandaríska verðbréfaeftirlitsins en þá er einnig áætlað, eins og Innherji hefur áður fjallað um, að viðskipti með hlutabréf Alvotech geti hafist á First North-markaðnum í Kauphöllinni á Íslandi 23. júní næstkomandi. Á báðum mörkuðum verða hlutabréfin auðkennd „ALVO“.
Markaðsvirði sameinaðs félags Alvotech og Oaktree, þegar búið er að taka tillit til þeirrar fjármögnunar sem Alvotech sótti sér í lok ársins, við skráningu á markað er 2,25 milljarðar dala, sem jafngildir tæplega 290 milljörðum króna. Miðað við það verður Alvotech annað verðmætasta félagið í Kauphöllinni á Íslandi – á eftir Marel.
„Þetta eru afar spennandi skref fyrir Alvotech teymið, samstarfsaðila okkar og alla þá sem vilja stuðla að auknu framboði líftæknilyfja sem uppfylla ítrustu kröfur og lækka kostnað heilbrigðiskerfisins,“ er haft eftir Róberti Wessman, stofnanda og stjórnarformanni Alvotech, í tilkynningu.
„Frá stofnun fyrirtækisins fyrir áratug höfum við helgað krafta okkar því að bæta aðgengi að meðferðarúrræðum sem geta gjörbreytt lífsgæðum sjúklinga.“
Zaid Pardesi, fjármálastjóri og stjórnandi samrunafélagsins Oaktree Acquisition Corp II, segir Alvotech vera að stíga inn á hlutabréfamarkað einmitt þegar heilbrigðisþjónusta um allan heim stendur á miklum tímamótum, þar sem kröfur um aukið aðgengi og lægri kostnað verða sífellt háværari.
„Við erum einstaklega stolt af því að fá að starfa með félagi sem getur í senn bætt líf sjúklinga og aukið sjálfbærni heilbrigðiskerfisins. Við hlökkum til að starfa áfram með Alvotech teyminu og stuðla þannig að því að fyrirtækið nái því markmiði að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja á öllum helstu mörkuðum heimsins.“
Á næstu árum renna mörg einkaleyfi líftæknilyfja út, sem skapar tækifæri fyrir fyrirtæki á borð við Alvotech til að setja sambærileg lyf á markað á mun lægra verði. Á árinu 2020 gerðu Alvotech og alþjóðlegi lyfjarisinn Teva Pharmaceuticals með sér samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu fimm hliðstæðu líftæknilyfja í Bandaríkjunum og er sá samningur sagður tryggja íslenska félaginu tekjur upp á hundruð milljarða á komandi árum.
Þetta eru afar spennandi skref fyrir Alvotech teymið, samstarfsaðila okkar og alla þá sem vilja stuðla að auknu framboði líftæknilyfja sem uppfylla ítrustu kröfur og lækka kostnað heilbrigðiskerfisins.
Þar munar mest um hliðstæðu gigtarlyfsins Humira, sem er söluhæsta lyf heim og selst vestanhafs fyrir um 20 milljarða dala á ári, en hingað til hefur lyfjafyrirtækið Abbvie verið eitt um söluna. Fyrr á árinu var tilkynnt um að Alvotech hefði náð samkomulagi við Abbvie sem veitir því almennan rétt til alþjóðlegrar markaðssetningar á líftæknihliðstæðulyfi við Humira sem fyrirtækið hefur þróað og er í hærri styrk og jafnframt útskiptanlegt án samráðs við lækna. Leyfið tekjur gildi í Bandaríkjunum um mitt næsta ár.
Í nýju verðmati bandaríska fjárfestingabankans Northland Capital, sem Innherji greindi frá í síðustu viku, var heildarvirði Alvotech metið á um 4,95 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 630 milljarða króna. Það er 120 prósentum hærri verðmiði en var á Alvotech eftir að félagið kláraði um 60 milljarða króna fjármögnun í lok síðasta árs.
Samkvæmt nýju verðmati Nortland Capital, sem var gefið út 31. maí síðastliðinn, kemur meðal annars fram að núverandi verðmiði á félaginu sé „aðlaðandi“ fyrir fjárfesta og geti, að sögn greinanda bankans, boðið upp á „spennandi“ ávöxtun með tilliti til áhættu. Meðal annars er vísað til þess að með viðskiptamódeli Alvotech sé áhætta lágmörkuð með samstarfssamningum við mörg alþjóðleg fyrirtæki sem koma að markaðssetningu á lyfjum félagsins á ólíkum mörkuðum.
Verðmat Northland Capital hljóðar upp á 22 dali á hlut en verðmatsgengið var uppfært um 16 prósent frá fyrra mati bankans frá því í mars þegar það var 19 dalir á hlut. Forsendur verðmatsins byggja meðal annars á EBITDA-margfaldara upp á 17,5 miðað við spá um að rekstrarhagnaður félagsins verði orðinn um 450 milljónir dala árið 2025. Sama ár verði heildartekjur Alvotech, sem er með átta líftæknilyf í þróun, orðnar um 825 milljónir dala en af þeirri fjárhæð muni áfangatekjur nema um 160 milljónum dala.