Í lagafrumvarpi sem liggur fyrir Alþingi er innviðaráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um að búnaður í tilteknum hlutum innlendra fjarskiptaneta, sem teljast viðkvæmir með tilliti til almannahagsmuna eða þjóðaröryggis, skuli í heild eða að ákveðnu hlutfalli vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við eða ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Ákvæðinu er beint að tveimur kínverskum framleiðendum fjarskiptabúnaðar. Þeir eru ekki nafngreindir sérstaklega í frumvarpinu en á síðustu misserum hafa mörg ríkið ákveðið að takmarka notkun búnaðar frá Huawei og ZTE við uppbyggingu 5G-fjarskiptaneta. Nú síðast í maí var greint frá því að ríkisstjórn Kanada hyggðist leggja bann við notkun búnaðar frá kínversku fyrirtækjunum í þarlendum 5G-netum.
Bent skal á, að þau lönd sem hafa heft frelsi fjarskiptafélaga til að velja sína birgja eru núna að dragast hratt aftur úr framframþróun.
Huawei er stór birgir hjá Sýn og Nova en eins og kunnugt er stendur yfir almennt hlutafjárútboð hjá síðarnefnda fyrirtækinu. Í skráningarlýsingu Nova er vikið að lagafrumvarpinu í upptalningu á áhættuþáttum.
„Ef frumvarpið verður samþykkt í óbreyttri mynd er möguleiki á því að helsta birgi [Nova] verði meinað að stunda viðskipti á Íslandi eins og hefur gerst í öðrum löndum og jafnframt gæti það haft takmarkandi áhrif á Nova og getu fyrirtækisins til að velja birgja,“ segir í skráningarlýsingunni.
Benedikt Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjarskipta hjá Nova, kom einnig inn á fyrirætlanir stjórnvalda á fjárfestafundi sem var haldinn í lok síðustu viku.
„Ef [yfirvöld] hyggjast beita svona aðferðum hér þá þurfa leikreglurnar að vera skýrar,“ sagði Benedikt. „Við mælum með að stjórnvöld halli sér upp að þessari finnsku leið þar sem settar voru skýrar reglur í fjarskiptalög um að ef til þess kæmi að fjarlægja búnað væru skýrar leikreglur, bæði um með hvaða hætti og hvernig skyldi haga bótum.“
Nova skilaði umsögn um frumvarpið í lok apríl þar sem beiting áðurnefndrar heimildar til að hlutast til um fjarskiptabúnað er sögð „baka Nova stórtjón sem og viðskiptavinum félagsins og öllum almenningi.“
Tafir á uppbyggingu 5G gætu, að því er kemur fram í umsögninni, numið 2 til 4 árum og afskrifa þyrfti milljarða fjárfestingar vegna útskipta á búnaði. Þá er einskiptiskostnaður vegna útskipta á búnaði áætlaður að lágmarki 6-8 milljarðar króna og rekstrarkostnaður fjarskipa gæti hækkað um meira en 20 prósent.
Lagði fjarskiptafélagið til að ákvörðun ráðherra þyrfti að byggja á „ítarlegu öryggismati“ sem yrði unnið í samráði við fjarskiptafyrirtæki. Jafnframt þyrfti ríkissjóður að greiða bætur til eigenda innlendra fjarskiptaneta vegna tjóns sem hlytist af inngripunum.
Sýn skilaði umsögn um svipað leyti þar sem félagið leggur einnig til að stjórnvöld fari finnsku leiðina.
„Bent skal á, að þau lönd sem hafa heft frelsi fjarskiptafélaga til að velja sína birgja eru núna að dragast hratt aftur úr framframþróun. Svíþjóð er gott dæmi, en þar hefur ríkt stöðnun síðastliðin tvö ár í kjölfar ákvarðana þarlendra yfirvalda um að innleiða ríkar takmarkanir,“ segir í umsögn Sýnar.
Ef [yfirvöld] hyggjast beita svona aðferðum hér þá þurfa leikreglurnar að vera skýrar
„í Finnlandi hefur hins vegar verið innleidd málefnaleg löggjöf þar sem allar takmarkanir verða að byggja á skýrt skjalfestu raunlægu áhættumati. Er Finnland af þeim sökum í fararbroddi á Norðurlöndum í uppbyggingu á 5G farsímanetum og - þjónustu.“
Samkvæmt skráningarlýsingu Nova hyggjast eigendur fjarskiptafélagsins selja rúmlega 37 prósenta hlut fyrir samtals um 7,2 milljarða króna – miðað við lágmarksgengið í útboðinu upp á 5,11 krónur á hlut – en með möguleika á að stækka það í allt að 44,5 prósenta hlut. Verði það gert mun söluandvirðið vera að lágmarki um 8,7 milljarðar króna.
Miðað við lágmarksgengið sem er ákvarðað í útboðinu þá er hlutafé Nova verðmetið á samtals 19,5 milljarða króna. Það er sami verðmiði og þegar þrír framtakssjóðir í rekstri Landsbréfa, Stefnis og Íslandssjóða fóru fyrir kaupum hóps fjárfesta á um 36 prósenta hlut í félaginu í apríl fyrir samtals um sjö milljarða króna.
Hinir nýju fjárfestar, sem komu inn í hlutahóp Nova í byrjun apríl, stóðu að baki 3,5 milljarða króna hlutafjáraukningu – hún var á genginu 5,11 krónur á hlut og sögð til að styðja við frekari fjárfestingar á 5G fjarskiptakerfinu og styrkja efnahagsreikninginn – auk þess sem hluthafar Nova seldu þeim hluta af sínum bréfum.
Þar var fyrst og fremst um að ræða félagið Nova Acquisition, sem er í eigu bandaríska framtakssjóðsins Pt Capital, sem fer núna með samtals um 53 prósenta hlut sem stærsti hluthafinn. Fyrir söluna var félagið með 89 prósenta eignarhlut.
Pt Capital eignaðist fyrst 50 prósenta hlut í fjarskiptafyrirtækinu árið 2017 en sjóðurinn keypti síðan eftirstandandi helmingshlut Novator í ágúst í fyrra og eignaðist við það nærri allt hlutafé Nova.
Innherji er undir hatti Sýnar hf.