Lífið

Shakira og Piqué skilja eftir ellefu ára samband

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Leiðir skilja hjá Shakiru og Gerard Piqué.
Leiðir skilja hjá Shakiru og Gerard Piqué. Getty/ Europa Press Entertainment

Kólumbíska tónlistarkonan Shakira og knattspyrnumaðurinn Gerard Piqué hafa ákveðið að skilja að borði og sæng eftir ellefu ára samband. 

„Okkur hryggir að tilkynna ykkur að við erum að skilja. Með velferð barnanna okkar að leiðarljósi óskum við eftir því að friðhelgi þeirra sé virt,“ sögðu hjónin í tilkynningu í dag. 

Shakira, sem er 45 ára, og Piqué, sem er 35 ára, kynnust stuttu fyrir Heimsmeisaramótið í knattspyrnu í Suður-Afríku árið 2010. Piqué var einn þeirra knattspyrnumanna sem lék í tónlistarmyndbandi Shakiru við lagið Waka Waka (This Time for Africa), sem var lag keppninnar það árið. 

Árið 2011 opinberuðu þau sambandið. Síðan hafa þau eignast tvö börn, Milan sem eru 10 ára og Sasha sem er 7 ára. 

Shakira greindi nýlega frá því að börnin hennar hafi hjálpað henni að þróa hugmyndina að nýjasta tónlistarmyndbandinu hennar, Te Felicito. Miklir listamenn greinilega, eins og þau eiga kyn til.

Undanfarna daga hafa sögusagnir um skilnað Shakiru og Piqués farið á flug á Spáni en slúðurmiðlar þar hafa ýjað að því að eitthvað væri að í sambandi þeirra og vísuðu til þess að Piqué væri fluttur af fjölskylduheimilinu í Barcelona og byggi einn í borginni. 

Þá leggst skilnaðurinn ofan á erfiða stöðu Shakiru en hún hefur verið ákærð fyrir skattsvik. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×