Innherji

Hækkar verðmatið á Alvotech í 630 milljarða rétt fyrir skráningu á markað

Hörður Ægisson skrifar
Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, en í næstu viku mun að óbreyttu öfugur samruni við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree klárast. Í kjölfarið fer Alvotech á markað.
Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, en í næstu viku mun að óbreyttu öfugur samruni við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree klárast. Í kjölfarið fer Alvotech á markað.

Heildarvirði íslenska líftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech, sem verður skráð á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum og á Íslandi síðar í þessum mánuði, er metið á um 4,95 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 630 milljarða króna, í uppfærðu verðmati bandaríska fjárfestingabankans Nortland Capital á félaginu.

Það er 120 prósentum hærri verðmiði en var á Alvotech eftir að félagið kláraði um 60 milljarða króna fjármögnun í lok síðasta árs.

Gert er ráð fyrir að öfugur samruni Alvotech og sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II í Bandaríkjunum gangi í gegn miðvikudaginn 15. júní næstkomandi. Daginn eftir, eða þann 16. júní, verður Alvotech þá skráð á markað í Nasdaq kauphöllinni í New York og viku síðar – fimmtudaginn 23. júní – er áformað að hlutir í Alvotech verði teknir til viðskipta á First North-markaðnum í Kauphöllinni á Íslandi.

Markaðsvirði sameinaðs félags Alvotech og Oaktree, þegar búið er að taka tillit til þeirrar fjármögnunar sem Alvotech sótti sér í lok ársins, við skráningu á markað er 2,25 milljarðar dala, sem jafngildir tæplega 290 milljörðum króna. Miðað við það verður Alvotech annað verðmætasta félagið í Kauphöllinni á Íslandi – á eftir Marel.

Úr fjárfestakynningu Alvotech.

Samkvæmt nýju verðmati Nortland Capital, sem var gefið út 31. maí síðastliðinn og Innherji hefur undir höndum, kemur meðal annars fram að núverandi verðmiði á félaginu sé „aðlaðandi“ fyrir fjárfesta og geti, að sögn greinanda bankans, boðið upp á „spennandi“ ávöxtun með tilliti til áhættu.

Í verðmatinu er vísað til þess að með viðskiptamódeli Alvotech sé áhætta lágmörkuð með samstarfssamningum við mörg alþjóðleg fyrirtæki sem koma að markaðssetningu á lyfjum félagsins á ólíkum mörkuðum. Á meðal þeirra fyrirtækja sem gerðir hafa verið slíkir samningar eru Teva, STADA, Yangtze, FujiPharma og JAMP Pharma en samtals er um að ræða markaðssetningu á lyfjum sem nær til meira en 90 landa. Samanlagt munu þessir samningar skila sér í áfangatekjum til Alvotech upp á 1,15 milljarða dala, en nú þegar sé búið að greiða til félagsins um 200 milljónir dala.

Verðmat Northland Capital hljóðar upp á 22 dali á hlut en verðmatsgengið var uppfært um 16 prósent frá fyrra mati bankans frá því í mars þegar það var 19 dalir á hlut. Forsendur verðmatsins byggja meðal annars á EBITDA-margfaldara upp á 17,5 miðað við spá um að rekstrarhagnaður félagsins verði orðinn um 450 milljónir dala árið 2025. Sama ár verði heildartekjur Alvotech, sem er með átta líftæknilyf í þróun, orðnar um 825 milljónir dala en af þeirri fjárhæð muni áfangatekjur nema um 160 milljónum dala.

Í greiningunni segir að Alvotech sé í „einstakri stöðu“ til að verða leiðandi fyrirtæki í hinum ört vaxandi líftæknilyfjaiðnaði. Vegna samstarfssamninga við alþjóðleg fyrirtæki um markaðssetningu og áherslu Alvotech á líftæknihliðstæðulyf sem eru útskiptanleg án samráðs við lækna telur Northland Capital, að því er kemur fram í verðmatinu, að félagið geti náð yfir fjórðung markaðshlutdeild.

Á næstu árum renna mörg einkaleyfi líftæknilyfja út, sem skapar tækifæri fyrir fyrirtæki á borð við Alvotech til að setja sambærileg lyf á markað á mun lægra verði. Á árinu 2020 gerðu Alvotech og alþjóðlegi lyfjarisinn Teva Pharmaceuticals með sér samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu fimm hliðstæðu líftæknilyfja í Bandaríkjunum og er sá samningur sagður tryggja íslenska félaginu tekjur upp á hundruð milljarða á komandi árum.

Þar munar mest um hliðstæðu gigtarlyfsins Humira, sem er söluhæsta lyf heim og selst vestanhafs fyrir um 20 milljarða dala á ári, en hingað til hefur lyfjafyrirtækið Abbvie verið eitt um söluna. Fyrr á árinu var tilkynnt um að Alvotech hefði náð samkomulagi við Abbvie sem veitir því almennan rétt til alþjóðlegrar markaðssetningar á líftæknihliðstæðulyfi við Humira sem fyrirtækið hefur þróað og er í hærri styrk og jafnframt útskiptanlegt án samráðs við lækna. Leyfið tekjur gildi í Bandaríkjunum um mitt næsta ár.

Úr verðmatsgreiningu Northland Capital.

Á þessu ári er talið að tekjur Alvotech muni nema um 120 milljónum dala, að meirihluta vegna áfangatekna, sem er á pari við áætlanir félagsins. Alvotech hefur þegar fengið samþykkt markaðsleyfi fyrir lyfið Humira í Evrópu, Kanada og Bretlandi. Fram kemur í verðmati Northland Capital að áætlað sé að Alvotech muni hefja sölu á lyfinu í Bandaríkjunum á seinni helmingi næsta árs.

Í byrjun desember í fyrra kláraði Alvotech fjármögnun upp á 450 milljónir dala en hún skiptist í 250 millljóna dala innspýtingu reiðufjár frá sérhæfða yfirtökufélaginu sem er í rekstri Oaktree Capital og til viðbótar komu 175 milljónir dala, einkum frá erlendum stofnanafjárfestum, í gegnum lokað hlutafjárútboð þar sem verðmat á hvern hlut var tíu dalir. Þá lögðu núverandi hluthafar Alvotech félaginu einnig til nýtt hlutafé upp á 50 milljónir dala.

Á meðal þeirra fjárfesta sem komu að hlutafjáraukningu Alvotech voru Suvretta Capital, Athos (fjárfestingafélag Strüngmann-fjölskyldunnar), CVC Capital Partners, Temasek, Farallon Capital Management, Sculptor Capital Management og íslenskur fjárfestahópur leiddur af Arion Banka, Landsbankanum og Arctica Finance. Mánuði síðar, eða í janúar á þessu ári, var tilkynnt um að hlutafjárútboðið hefði verið stækkað um 21 milljónir dala vegna umframeftirspurnar af hálfu innlendra fjárfesta.

Íslensku bankarnir, ásamt Arctica, sem voru á meðal söluráðgjafa í ferlinu sölutryggðu um 80 milljónir dala í útboðinu, samkvæmt upplýsingum Innherja, en þeir innlendu fjárfestar sem lögðu félaginu til fjármagn voru einkum verðbréfasjóðir, fjárfestingafélög og fjársterkir einstaklingar. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, sem hafði fyrst fjárfest í Alvotech í ársbyrjun 2021 ásamt meðal annars Stefni, Hval og TM, var eini lífeyrissjóðurinn sem tók þátt í hlutafjárútboðinu.

Alvotech var stofnað árið 2013 af Róberti Wessman og er í meirihlutaeigu Aztiq, fjárfestingafélags sem Róbert leiðir. Þá er samheitalyfjafyrirtækið Alvogen, sem Róbert stýrir einnig, auk þess stór hluthafi, en í því félagi eru fjárfestingasjóðirnir CVC Capital Management og Temasek stórir eigendur. Samhliða viðskiptunum munu hluthafar Alvotech skipta sínu hlutafé fyrir bréf í sameinuðu félagi.

Að því gefnu að enginn af núverandi hluthöfum Oaktree Acquisition Corp. II nýti innlausnarrétt sinn þá munu núverandi hluthafar Alvotech eiga um 79 prósent í sameinuðu félagi, hluthafar Oaktree Acquisition um 11 prósent, og áðurnefndir fjárfestar, sem koma með nýtt fé inn í tengslum við sameininguna, um 8 prósenta hlut í félaginu við lokun viðskiptanna.

Núverandi hluthafar Alvotech eiga rétt á árangurstengdum greiðslum nái félagið tilteknum fjárhagslegum markmiðum eftir að það verður skráð á markað. Þannig geta þeir fengið úthlutað nýjum hlutum í félaginu upp á samtals liðlega 383 milljónir dala - miðað við að gengi hlutabréfanna í viðskiptunum er 10 dalir að nafnvirði - ef hlutabréfaverð þess hækkar um meira en 100 prósent innan tiltekins tíma.

Áður en Alvotech verður skráð á markað þurfa hluthafar Oaktree félagsins að samþykkja sameininguna á hluthafafundi sem hefur verið boðaður þann 7. júní næstkomandi. Verði sú tillaga samþykkt mun samruninn að óbreyttu klárast 15. júní og félagið í kjölfarið skráð á markað vestanhafs daginn eftir. Hluthafar í Oaktree eiga rétt á að innleysa fjárfestingu sína í SPAC-félaginu og fá hana greidda til baka í reiðufé í stað þess að fjárfesta í íslenska líftæknifyrirtækinu.

Hversu hátt innlausnarhlutfallið verður ætti að koma í ljóst í byrjun næstu viku.

Í apríl á þessu ári gekk Alvotech frá samkomulagi við tvo bandaríska fjárfestingasjóði – Yorkville Advisors og Sculptor Capital Management – sem tryggir félaginu aðgang að fjármögnun fyrir allt að 250 milljónir dala. Er þeim fjármögnunarlínum ætlað að mæta mögulegu útflæði fjármagns ef hluthafar sérhæfða yfirtökufélagsins Oaktree kjósa að innleysa bréf sín fyrir samrunann.

Áhrif þessara samninga eru að eyða óvissu og tryggja fjármögnun Alvotech óháð því hversu mikið verður um innlausnir. Með samkomulaginu er einnig verið að auka „frjálst flot“ af bréfum í félaginu, eins og haft var eftir Róberti Wessman í tilkynningu til bandaríska verðbréfaeftirlitsins á sínum tíma.

Frá stofnun Alvotech nemur heildarfjárfesting fyrirtækisins í uppbyggingu og þróunarstarfi í fjórum löndum um 1,1 milljarði dala, eða um 140 milljörðum króna. Fram hefur komið í máli stjórnenda félagsins að það stefni að því að velta Alvotech verði um 20 prósent af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins árið 2027.

Yfir 700 manns starfa nú hjá Alvotech, þar af um 500 á Íslandi. Alvotech réðst á liðnu ári í stækkun á hátæknisetri sínu í Vatnsmýrinni og verður það um 24 þúsund fermetrar að loknum framkvæmdum.


Tengdar fréttir

Alvotech reiknar með 100 milljarða króna tekjum árið 2025

Áætlanir Alvotech gera ráð fyrir að tekjur fyrirtækisins nemi 800 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 105 milljarða króna, á árinu 2025. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu sem íslenska líftæknifyrirtækið birti í dag samhliða tilkynningu um samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition og skráningu í bandarísku kauphöllina.

Alvotech klárar 60 milljarða fjármögnun og fer á markað í Bandaríkjunum

Alvotech hyggur á skráningu félagsins í bandarísku kauphöllina en skráningin mun fara fram með sameiningu Alvotech og sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II, sem stýrir eignum að verðmæti 156 milljörðum Bandaríkjadala. Þetta kemur fram í tilkynningu frá íslenska líftæknifyrirtækinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×