Erlent

Hyggjast banna sölu og inn­flutning á skamm­byssum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, kynnir nýja byssulöggjöf í Ottawa á mánudag
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, kynnir nýja byssulöggjöf í Ottawa á mánudag AP/Patrick Doyle

Ríkisstjórn Kanada, undir forystu Justin Trudeau forsætisráðherra, kynnti á mánudag nýja löggjöf sem bannar innflutning, sölu og kaup á skammbyssum. Búist er við því að lagafrumvarpið verði samþykkt í haust.

Trudeau hefur lengi haft áform um að herða byssulöggjöf. Fyrir tveimur árum bannaði ríkisstjórnin 1.500 tegundir hríðskotavopna í kjölfar mannskæðustu skotárásar í sögu landsins í Nova Scotia. Í lok þessa árs er stefnt að því að hefja skyldubundin endurkaup ríkisins á slíkum skotvopnum. Nýja löggjöfin kemur í kjölfar skotárásanna í Uvalde og Buffalo fyrr í mánuðinum.

Samkvæmt ríkisstjórninni gerir lagafrumvarpið ríkinu kleift að svipta fólk byssuleyfum, hafi það verið dæmt fyrir heimilisofbeldi eða umsáturseinelti, þ.e. dæmdir eltihrellar. Þá mun ríkisstjórnin gera það skylt að skothylkjum riffla verði varanlega breytt þannig að þau geti aldrei borið meira en fimm skot.

Frétt NPR.


Tengdar fréttir

Kanada bannar hríðskotavopn eftir versta fjöldamorð í sögu landsins

Sala á hríðskotarifflum verður bönnuð í Kanada í kjölfar mannskæðustu skotárásar í sögu landsins fyrir tveimur vikum. Justin Trudeau, forsætisráðherra, kynnti bannið í dag og sagði vopn að þessu tagi aðeins hönnuð til að drepa eins margt fólk og hægt er á sem skemmstum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×