Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) kröfðust þess af Samkeppniseftirlitinu að stofnunin tæki þá ákvörðun að skylda veiðifélög til að aðskilja leigu og rekstur veiðihúsa á veiðitímabili annars vegar og rekstur veitinga- og gistiþjónustu utan veiðitímabils hins vegar.
Jafnframt skoruðu samtökin á eftirlitsstofnunina að hefja rannsókn á aðstæðum veiðifélaga með það að markmiði að koma í veg fyrir að þau gætu nýtt sér veiðihús til útleigu utan skilgreinds veiðitíma.
SAF vísaði meðal annars til þess að starfsemi veiðifélaga væri rekin í skjóli opinbers „einkaleyfis eða verndar“ í skilningi samkeppnislaga enda fæli lögbundið hlutverk veiðifélaga í sér slíka vernd. Enginn annar hefði rétt til að reka gistingu fyrir veiðimenn á viðkomandi svæði.
Að mati samtakanna geta veiðifélög nýtt einokunaraðstöðu sína á veiðitímabili til að greiða niður samkeppnisrekstur utan veiðitímabils og bjóða þannig upp á þjónustu á lægra verði sem skekkir samkeppnisstöðuna.
Að mati samtakanna geta veiðifélög nýtt einokunaraðstöðu sína á veiðitímabili til að greiða niður samkeppnisrekstur utan veiðitímabils
Samkeppniseftirlitið gat ekki fallist á að veiðifélög stunduðu rekstur í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar. Benti stofnunin á að mörg veiðifélög störfuðu á Íslandi í samkeppni hvert við annað um sölu á veiðileyfum og annarri þjónustu sem þau veita í tengslum við sína starfsemi.
Að mati Samkeppniseftirlitsins njóta þau hvorki einokunar né verndar í starfsemi sinni að öðru leyti en því að þau hafa foræði yfir og ráðstafa eignum sínum og aðstöðu til að bjóða þjónustu sína rétt eins og til að mynda ferðaþjónustufyrirtæki gera innan vébanda SAF.
„Því til viðbótar renna sjónarmið varðandi forgangsröðun verkefna hjá stofnuninni enn frekari stoðum undir þá ákvörðun að aðhafast ekki frekar vegna kvörtunar áfrýjanda,“ segir í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem hafnaði öllum kröfum SAF.