Innherji

Hærri vextir og meiri áhættufælni lækkar verðmat á Íslandsbanka

Hörður Ægisson skrifar
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, en hlutabréfaverð bankans hefur, rétt eins og flestra annarra félaga í Kauphöllinni, lækkað talsvert á síðustu vikum og er nú á svipuðum slóðum og þegar ríkið seldi stóran hlut í útboði í lok marsmánaðar.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, en hlutabréfaverð bankans hefur, rétt eins og flestra annarra félaga í Kauphöllinni, lækkað talsvert á síðustu vikum og er nú á svipuðum slóðum og þegar ríkið seldi stóran hlut í útboði í lok marsmánaðar. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Gerbreytt vaxtaumhverfi ásamt aukinni áhættufælni fjárfesta þýðir að ávöxtunarkrafa á eigið fé Íslandsbanka hækkar talsvert, eða úr 11,3 prósentum í 12,3 prósent, og við það lækkar nokkuð verðmatsgengi bankans, að mati Jakobsson Capital.

Í nýju verðmati greiningarfyrirtækisins, sem kom út í gær og Innherji hefur undir höndum, er verðmatsgengi Íslandsbanka talið vera 121 krónur á hlut og er lækkað um 13 prósent frá fyrra mati þegar það var 139 krónur á hlut. Nýjasta verðmat Jakobsson Capital, sem metur markaðsvirði bankans á 242 milljarða króna, er aðeins um þremur prósentum hærra en núverandi markaðsgengi bankans sem stendur í 118,2 krónum á hlut.

Í greiningu Jakobsson segir að lækkun á verðmatsgenginu eigi „ekki að koma á óvart“ enda hafi bankar erlendis lækkað í verði samfara hærri ávöxtunarkröfu.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur, rétt eins og flestra annarra félaga í Kauphöllinni, lækkað talsvert á síðustu vikum og er nú á svipuðum slóðum og þegar ríkissjóður seldi 22,5 prósenta hlut fyrir tæplega 53 milljarða króna í útboði undir lok marsmánaðar á genginu 117 krónur á hlut.

Hagnaður Íslandsbanka nam 5,2 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi borið saman við 3,6 milljarða hagnað á sama tíma fyrir ári. Arðsemi eigin fjár jókst einnig talsvert og var um 10,4 prósent. Í verðmatsgreiningu Jakobsson segir hins vegar að rekstrarbatinn hafi verið minni þegar leiðrétt sé fyrir virðisbreytingum – þær voru jákvæðar um 500 milljónir miðað við virðisrýrnun upp á sömu fjárhæð í fyrra – en afkomubatann milli ára megi skýra einkum með miklum vexti í vaxtatekjum og stífu kostnaðaraðhaldi.

Greiningarfyrirtækið bendir á að vaxtamunur Íslandsbanka hafi að meðaltali verið um 2,9 prósent á árunum 2015 til 2020 þegar vaxtastigið var með „eðlilegum hætti“. Síðustu tvö árin hefur hins vegar vaxtamunur bankans verið um 2,5 prósent, samhliða því að vextir Seðlabankans voru lágir, en núna stefnir vaxtastigið í fyrra horf og telur Jakobsson Capital að vaxtamunur á meðalstöðu eigna Íslandsbanka verði um 2,8 prósent á þessu ári.

Umhverfi sem einkennist af kröftugum hagvexti samfara vaxtahækkun hentar viðskiptabönkum ákaflega vel.

Áætlað er að hreinar vaxtatekjur verði tæplega 41 milljarður, sem er töluvert umfram væntingar bankans sjálfs, og að samtals muni tekjur af efnahagsreikningi eða nettó fjármagnstekjur vera um 39,9 milljarðar. Á móti hefur Jakobsson Capital lækkað fyrri spá sína um afkomu bankans af verðbréfum.

Allt útlit er því fyrir að vaxtamunur Íslandsbanka muni aukast „umtalsvert,“ að sögn greinenda Jakobsson, og bent á að samkvæmt áhættuskýrslu bankans muni 100 punkta vaxtahækkun auka vaxtatekjur um rúmlega einn milljarð. Íslandsbanki var með jákvæðan verðtryggingarjöfnuð í lok fyrsta fjórðungs á þessu ári og hefur eins prósenta hækkun á vísitölu neysluverðs jákvæð áhrif á afkomu bankans sem nemur 31 milljón króna.

Hagvaxtarspár fyrir þetta ár gera ráð fyrir um fimm prósenta vexti. „Umhverfi sem einkennist af kröftugum hagvexti samfara vaxtahækkun hentar viðskiptabönkum ákaflega vel. Útlánaaukning samfara auknum vaxtamun mun einkenna rekstur viðskipabanka næstu ársfjórðunga,“ segir í verðmatinu.


Tengdar fréttir

Hlutabréfaverð Íslandsbanka fellur og nálgast gengið í útboði ríkissjóðs

Gengi bréfa Íslandsbanka hefur lækkað um tvö prósent í viðskiptum í Kauphöllinni í morgun og stendur nú í 117,8 krónum á hlut. Hlutabréfaverðið er því aðeins tæplega einni krónu hærra, eða sem nemur 0,7 prósentum, en þegar ríkissjóður seldi 22,5 prósenta hlut í bankanum með tilboðsfyrirkomulagi fyrir samtals tæplega 53 milljarða króna fyrir um tveimur mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×