Handbolti

Ráð­herra stoltur af af­rekum vin­kvenna sinna í Fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Karen og Stella stóðu í ströngu um helgina.
Karen og Stella stóðu í ströngu um helgina. Vísir/Hulda Margrét

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hélt að því virðist með Fram í úrslitaeinvígi Olís deildar kvenna í handbolta. Tvær af vinkonum hennar voru í liði Fram sem hampaði á endanum titlinum.

Fram varð Íslandsmeistari á sunnudag með eins marks sigri á Val er liðin mættust í Safamýri. Einvígi liðanna var æsispennandi og alltaf mjótt á munum. 

Áslaug Arna hefur fylgst spennt með en tvær af æskuvinkonum hennar í Framliðinu. Hún hrósaði þeim í hástert á Twitter-síðu sinni.

„Ótrúlega stolt af vinkonum mínum sem sýndu það enn á ný hvað þær eru ótrúlegar íþróttakonur. Karen (Knútsdóttir) er engri lík. Spilar handboltann með vinnu, námi & móðurhlutverkinu. Ástríðan fyrir handboltanum alltaf verið til staðar,“ segir Áslaug Arna og heldur svo áfram.

Karen fagnar Íslandsmeistaratitlinum.Vísir/Hulda Margrét

Karen var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar. Hún skoraði 9 mörk í sigrinum á sunnudag en í einvíginu skoraði hún samanlagt 34 mörk.

„Það sama á við um Stellu (Sigurðardóttur). Hún var fyrirliði í landsliðinu og í atvinnumennsku þegar hún þurfti í sjö ár að hætta í handbolta vegna höfuðmeiðsla sem hafði mikil áhrif. En hún kom til baka og sótti Íslandsmeistaratitil í gær að nýju! Fyrirmyndir báðar tvær.“

Að lokum segir ráðherra að þær Karen og Stella hafi reynt að gera sig að handboltakonu.

„Þær reyndu að gera handboltakonu úr mér. En ég æfði lengi með Fram með þeim þó ég hafi aldrei búið í því hverfi. Keppnisskap þeirra og áræðni dugði hins vegar ekki til í það skiptið.“


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×