Erlent

„Við getum ekki bannað harm­leiki, en við getum gert Banda­ríkin öruggari“

Árni Sæberg skrifar
Joe Biden huggaði Mandy Gutierrez, skólastjóra Robb grunnskólans, þegar hann heimsótti Uvalde í dag.
Joe Biden huggaði Mandy Gutierrez, skólastjóra Robb grunnskólans, þegar hann heimsótti Uvalde í dag. AP Photo/Dario Lopez-Mills

Joe Biden Bandaríkjaforseti heimsótti smábæinn Uvalde í dag til að votta aðstandendum fórnarlamba skotárásar í skóla í bænum sem framin var í vikunni. Forsetinn þurfti að fara í álíka heimsókn í síðustu viku.

Forsetinn og dr. Jill Biden, eiginkona hans, lögðu blómvönd við minningarvarða fyrir utan Robb grunnskólann í Uvalde í Texas þar sem átján ára karlmaður myrti nítján börn og tvo kennara á þriðjudag.

„Hrein illska kom í þessa skólasstofu í grunnskóla í Texas, í matvöruverslunina í New York, á allt of marga staði í Bandaríkjunum þar sem saklaust fólk hefur látið lífið,“ sagði forsetinn í ávarpi í háskólanum í Delaware í gær.

Einungis hálfur mánuður er síðan önnur alvarleg fjöldaárás var framin í Bandaríkjunum þegar annar átján ára karlmaður myrti tíu blökkumenn og særði þrjá til viðbótar í verlsun í Buffalo í New York.

Hávært ákall hefur verið í Bandaríkjunum undanfarið að skotvopnalöggjöf verði hert þar í landi. Joe Biden hefur alla tíð verið mikill stuðningsmaður hertrar skotvopnalöggjafar.

„Við verðum að vera harðari. Við getum ekki bannað harmleiki, ég veit það, en við getum gert Bandaríkin öruggari“ sagði forsetinn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×