Hlutabréfaverð Kviku hefur verið undir þrýstingi á markaði á undanförnum mánuðum og hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 28 prósent frá þeim tíma þegar stóð hvað hæst um miðjan nóvember í fyrra.
Gengi bréfa Kviku stendur nú í 20,1 krónu á hlut og hefur lækkað um nærri 1,5 prósent það sem af er degi. Megnið af lækkuninni átti sér stað eftir að tilkynning um viðskiptin var send til Kauphallarinnar.
Fyrr í vikunni nýtti Marinó áskriftarréttindi að bréfum bankans þar sem hann keypti 5 milljón bréf á genginu 7,57. Nam kaupverðið því um 38 milljónum króna.
Hagnaður Kviku banka á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 1.740 milljónum króna, sem var í samræmi við áætlanir á fjórðungnum, og arðsemi af efnislegu eigin fé félagsins fyrir skatta var 16,1 prósent.
Þá var fyrr í maí tilkynnt um að alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Moody´s hefði í fyrsta sinn úthlutað Kviku banka Baa2 langtíma- og Prime-2 skammtíma- lánshæfiseinkunn í fjárfestingaflokki fyrir móttöku innstæða og útgáfu skuldabréfa.
Lánshæfiseinkunn Kviku, sem er sú fyrsta sem bankinn fær frá einu af alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækjunum, er sambærileg þeim sem stóru viðskiptabankarnir þrír eru með hjá hinum matsfyrirtækjunum.