Bíó og sjónvarp

„Skapar magnaðan neista í fólki sem verður til þess að því finnst það hafa virkilegan tilgang í lífinu“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Fjallað er um framtak Sigrúnar Sævarsdóttur-Griffiths í sjónvarpsþættinum Ég sé þig.
Fjallað er um framtak Sigrúnar Sævarsdóttur-Griffiths í sjónvarpsþættinum Ég sé þig. Aðsend

Sjónvarpsþátturinn Ég sé þig fjallar um skapandi tónlistarmiðlun þar sem fylgst er með Sigrúnu Sævarsdóttur-Griffiths, sem nýtir tónlist til að hjálpa fólki til virkni í samfélaginu. Anna Hildur Hildibrandsdóttir er leikstjóri en blaðamaður tók púlsinn á henni og fékk að heyra nánar frá þessu verkefni.

Sigrún hefur stofnað fjölda hljómsveita víða um heim með jaðarsettum einstaklingum en markmiðið er að fólk tilheyri hljómsveit og taki þátt í að búa til frumsamda tónlist. Í þættinum, sem er frumsýndur á RÚV í kvöld klukkan 20:05, er sagt frá stofnun Kordu Samfóníu, sem er 35 manna hljómsveit á Íslandi.

Hópurinn samanstendur af fólki sem hefur leitað sér hjálpar hjá starfsendurhæfingar-stöðvum, spilurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og nemendum og starfsfólki við skapandi tónlistarmiðlun í Listaháskóla Íslands. Einnig er rætt við þrjá meðlimi Kordu Samfóníu um þýðingu verkefnisins fyrir þau og hvernig það hjálpaði þeim að vinna sig í gegnum sín áföll.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir, leikstjóri Ég sé þig.Aðsend

Spennandi verkefni

Anna Hildur segir framtakið strax hafa heillað sig.

„Þegar ég heyrði af því að Sigrún ætlaði að setja saman hljómsveit á Íslandi sem samanstæði af fólki frá Listaháskóla Íslands, spilurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og skjólstæðingum starfsendurhæfingarstöðva fannst mér strax spennandi að fá að fylgjast með hvernig myndi takast til. 

Ég vissi um vinnuna hennar með heimilislausa samfélaginu í London og hafði átt þess kost að sjá tónleika með hljómsveitinni The Messengers sem hún stofnaði þar árið 2012. 

Rut Sigurðardóttir tökukona var til i að stökkva til með mér og við heilluðumst strax af orkunni og töfrunum sem voru í gangi.“

Magnaður neisti

Í kjölfarið fór ferlið að sjónvarpsþættinum á flug.

„Við vorum alveg helteknar, settum saman stiklu eftir fyrstu prufutökur og fengum RÚV í lið með okkur. Við völdum strax viðmælendur til að vera sögumenn og höfum átt ótrúlega greiðan aðgang að þeim. Allir sem komu að þessu voru tilbúnir til að lána vinnuna sína þannig að ferlið gekk snurðulaust fyrir sig þrátt fyrir fjárskort,“ segir Anna Hildur og bætir við að hana langaði mikil að varpa ljósi á mikilvægi þess starfs sem Sigrún leiðir.

„Það mikilvægasta sem ég sé í nálgun Sigrúnar er hvernig hún leggur sig fram um að byggja brýr á milli samfélagshópa. Í þessu tilfelli er hún að vinna með fólki sem hefur orðið fyrir alvarlegum áföllum og þurft langan tíma til að vinna sig í gegnum þau. 

Hún nær að skapa jöfnuð þannig að sem áhorfandi veistu ekki hvaðan fólkið sem þú sérð á sviði kemur eða hver bakgrunnur þeirra er. En hún nær líka að skapa svo magnaðan neista í fólki sem verður til þess að fólki finnst það hafa virkilegan tilgangi í lífinu.“
Kordu Samfónía er 35 manna hljómsveit á Íslandi sem Sigrún Sævarsdóttur-Griffiths stofnaði.Aðsend

Eykur virkni í samfélaginu

Anna Hildur vitnar í einn viðmælanda þáttsins, Þórarinn Örn, sem segir:

„Þegar þú hefur eitthvað eins og þetta verkefni sem er svona langt og spennandi það gefur bara auka neista í lífið. Alveg 100%. Og líka bara að vakna núna, það er bara YES! til í þetta.“

Hún segir þessi orð hans hafa fylgt sér frá því að hún tók fyrst viðtal við hann í febrúar 2021. „Þetta er svo gott dæmi um hvernig hægt er að auka virkni og samþáttun í samfélaginu okkar.“

Breytir lífi fólks

Tónlist er sannarlega stór hluti af lífi Sigrúnar Sævarsdóttir-Griffiths hljómsveitarstjóra en hún segir tónlistina vera svo miklu meira en eitthvað til þess að hafa gaman af.

„Tónlistarkiðkun breytir lífi fólks og allir ættu að fá tækifæri til þess að tengjast og eflast með þessum hætti.“
Sigrún segir að tónlistariðkun geti sannarlega breytt lífi fólks.Aðsend

Þátturinn er framleiddur fyrir RÚV og styrktur af Endurgreiðslusjóði fyrir kvikmyndir, Miðstöð símenntunnar á Suðurnesjum/Samvinnu, Lýðheilsusjóði, Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar, Starfsendurhæfingu Vesturlands, Tónlistarborginni Reykjavík og VIRK.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.