Fótbolti

Eitt helsta stjörnupar fótboltans hætt saman

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alphonso Davies og Jordyn Huitema voru saman í fimm ár.
Alphonso Davies og Jordyn Huitema voru saman í fimm ár. getty/Stefan Matzke

Alphonso Davies, leikmaður Bayern München, hefur staðfest að hann sé hættur með fótboltakonunni Jordyn Huitema.

Þau Davies og Huitema voru eitt þekktasta fótboltapar heims enda bæði í fremstu röð. Sem fyrr sagði spilar Davies með Bayern á meðan Huitema leikur með Paris Saint-Germain. Þau leika bæði fyrir kanadíska landsliðið og Huitema varð meðal annars Ólympíumeistari með því í fyrra.

Davies greindi frá sambandsslitunum á Twitter í fyrradag. „Já, við Jordyn höfum farið í sitt hvora áttina. Slúðrið um hana er ekki satt. Hún er góð manneskja sem ég ber mikla virðingu fyrir. Ég óska henni alls hins besta og bið alla um að virða einkalíf okkar,“ skrifaði Davies en fór ekki nánar út í hvaða slúðursögur væri um að ræða.

Davies og Huitema, sem eru bæði 21 árs, voru saman í fimm ár áður en kom að leiðarlokum hjá þeim. Þau hafa bæði eytt öllum ummerkjum um hvort annað af samfélagsmiðlum sínum.

Davies varð þýskur meistari með Bayern í vetur. Hann var frá í þrjá mánuði vegna hjartavandamála og lék því aðeins 22 deildarleiki á tímabilinu.

Huitema og stöllur hennar í PSG eru bikarmeistarar og eiga enn veika von um að verða franskir meistarar. PSG er fimm stigum á eftir toppliði Lyon þegar tveimur umferðum er ólokið. Þá komst PSG í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið tapaði einmitt fyrir Lyon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×