Viðskipti innlent

Cocoa Puffs snýr aftur í verslanir

Eiður Þór Árnason skrifar
Fjölmargir aðdáendur Cocoa Puffs geta nú tekið gleði sína á ný.
Fjölmargir aðdáendur Cocoa Puffs geta nú tekið gleði sína á ný. Vísir/Vilhelm

Cocoa Puffs er væntanlegt aftur í verslanir á næstu dögum en morgunkornið hvarf af íslenskum markaði í byrjun seinasta árs. Uppskrift súkkulaðikúlnanna hefur nú verið breytt og er fyrsta sendingin þegar komin til landsins að sögn umboðsaðila.

Óhætt er að segja að sölustöðvunin hafi komið mörgum aðdáendum vörunnar í opna skjöldu og gripu margir til þess ráðs að hamstra morgunkornið í verslunum. Sömuleiðis gripu söluaðilar til ýmissa ráðstafanna í tilraun sinni til halda þessari eftirsóttu vöru áfram í sölu. 

Greint er frá endurkomunni í tilkynningu frá umboðsaðilanum. Að sögn bandaríska framleiðandans General Mills var það ný uppskrift sem gerði það að verkum að óheimilt var að selja vöruna lengur á Evrópska efnahagssvæðinu. 

Minni sykur og meira prótein

Að sögn Nathan & Olsen, sem hefur innflutt morgunkornið hingað til lands til fjölda ára, hefur uppskriftinni verið breytt aftur og samrýmist nú evrópulöggjöf.

„Sú breyting gerir það að verkum að við fáum loksins Cocoa Puffs aftur til Íslands og landsmenn fá aftur þetta vinsæla morgunkorn með minna sykur- og fituinnhaldi og meira próteini,“ segir í tilkynningunni frá umboðsaðilanum. 

„Við teljum að framleiðanda hafi tekist mjög vel til og við erum mjög ánægð með að geta boðið landsmönnum aftur upp á hið frábæra vörumerki Cocoa Puffs líkt og við höfum gert undanfarna áratugi,“ segir Ari Fenger, eigandi Nathan & Olsen.

Cocoa Puffs ekki eins vinsælt í Evrópu

Lísa Björk Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Nathan & Olsen, sagði í samtali við Vísi í október síðastliðnum að uppi væri snúin staða og framleiðandinn General Mills væri ekki tilbúinn til að sérframleiða vöru fyrir íslenskan markað.  

„Morgunkorn er dálítið séríslenskt fyrirbrigði sem er arfleitt frá Bandaríkjunum. Morgunverðartrend eru öðruvísi annars staðar í Evrópu svo hún hefur ekki fengist þessi Ameríkuvara sem við höfum verið að bjóða upp á.“

Hún bætti þó við að General Mills vildi reyna að koma með eitthverja aðra vöru í staðinn.

„Ég er alveg bjartsýn á að við finnum eitthvað en hvort neytendur verði ánægðir með það verður bara að koma í ljós. Maður vonar alltaf það besta,“ sagði Lísa Björk á seinasta ári. 


Tengdar fréttir

Leyft að selja gamlar birgðir: „Þetta verður ekki flutt aftur til landsins“

Hagkaup fékk nýlega heimild hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til að selja síðustu pakkana sína af Cocoa Puffs. Þeir höfðu safnað ryki í vöruhúsi eftir að tilkynnt var að ekki væri lengur heimilt að selja morgunkornið á Íslandi. Vörurnar voru fluttar til landsins síðasta sumar og hefðu að óbreyttu verið urðaðar.

Harka færist í bar­áttuna um fram­­tíð Cocoa Puffs á Ís­landi

Aðdáendur Cocoa Puffs vöknuðu upp við vondan draum í lok mars þegar umboðsaðili morgunkornsins tilkynnti að það yrði brátt ófáanlegt á Íslandi. Meira en hálfu ári síðar er enn hægt að fá súkkulaðikúlurnar í völdum verslunum en óvissa ríkir um framtíðina. Heilbrigðiseftirlitið hefur krafist þess að varan verði endanlega tekin úr sölu.

ESB: Við bönnuðum ykkur ekki að borða Cocoa Puffs og Lucky Charms

Mörgum brá í brún um síðustu mánaðamót þegar þær fréttir bárust að morgunkornið Cocoa Puffs og Lucky Charms yrði brátt ófáanlegt á Íslandi. Fregnirnar vöktu mikla athygli og sátu margir aðdáendur hins vinsæla morgunkorns eftir með sárt ennið eða byrjuðu að hamstra vörurnar í stórum stíl.

Cocoa Puffs og Lucky Charms verða ekki fáanleg á Íslandi

Cocoa Puffs og Lucky Charms verða brátt ófáanleg á Íslandi ef marka má tilkynningu frá Nathan & Olsen. Þar segir að framleiðandinn General Mills hafi nýlega upplýst að ný uppskrift samræmist ekki Evrópulöggjöf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×