Erlent

Tónlistargoðsögnin Vangelis látin

Kjartan Kjartansson skrifar
Vangelis fagnar aðdáendum sínum við Seifshofið í Aþenu árið 2001.
Vangelis fagnar aðdáendum sínum við Seifshofið í Aþenu árið 2001. Vísir/EPA

Gríska tónskáldið og tónlistarmaðurinn Vangelis er látinn, 79 ára að aldri. Vangelis hlaut Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína við kvikmyndina „Eldvagnana“ (e. Chariots of Fire) en hljóðheimur hans setti einnig sterkan svip á vísindaskáldsöguna Blade Runner.

Fulltrúar Vangelis greindu frá því að hann hefði látist á sjúkrahúsi í Frakklandi þar sem hann var til meðferðar. Vangelis hét réttu nafni Evángelos Odysséas Papathanassíou og var fæddur árið 1943. Hann var að mestu sjálflærður í tónlist. Hóf hann tónlistarferilinn í popptónlist á sjöunda áratug síðustu aldar en sneri sér síðan nær alfarið að kvikmyndatónlist.

Óskarsverðlaunin hlaut Vangelis fyrir tónilistan við Eldvagnana sem var frumsýnd árið 1981. Aðallag myndarinnar varð heimsþekkt og náði efsta sæti vinsældalista í Bandaríkjunum, að því er segir í frétt The Guardian.

Tónlistarmaðurinn var ekki síst þekktur fyrir notkun sína á hljóðgervlum sem ljáðu meðal annars Blade Runner sérstakt andrúmsloft. Margir þekkja einnig tónlist Vangelis úr vísindaþáttunum Cosmos sem bandarísku stjörnufræðingurinn Carl Sagan stýrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×