Tekjur Hvals á liðnu fjárhagsári, sem nær frá október 2020 til loka september 2021, námu samtals um 4,2 milljörðum króna. Þær koma einkum til vegna eignarhluta í hlutdeildarfélögunum Hampiðjunni og Íslenska gámafélaginu en einnig tekjum af öðrum félögum, meðal annars söluhagnaðurinn af hlutnum í Origo, og þá námu vaxtatekjur Hvals rúmlega 700 milljónum og minnkuðu um rúmlega helming frá fyrra ári.
Helsta breytingin á rekstri Hvals á síðasta ári eru þær að tekjur af sölu hvalaafurða lækka verulega – úr 1.300 milljónum í rúmlega 140 milljónir – vegna þess að birgðir félagsins eru orðnar afar litlar en ekki hefur verið veiddur hvalur frá árinu 2018.
Bókfært eigið fé Hvals, sem er meðal annars einn af stærstu hluthöfum Arion banka með 2,4 prósenta hlut, hækkar lítillega og nemur 25,9 milljörðum króna. Félagið er nánast skuldlaust, einu skuldirnar eru rekstrarlán í japönskum jenum upp á rúmlega 700 milljónir, og eiginfjárhlutfallið því um 97 prósent.
Raunverulegt eigið fé Hvals er hins vegar talsvert meira sé litið til þess að um 46 prósenta eignarhlutur í Hampiðjunni, sem er skráð á First North-markaðinn í Kauphöllinni, er ekki bókfærður á markaðsvirði í reikningum félagsins. Þannig er hlutur Hvals í Hampiðjunni ásamt helmingshlut í Íslenska gámafélaginu metinn á 9,4 milljarða í ársreikningnum en sé litið til núverandi gengi hlutabréfa Hampiðjunnar er markaðsvirði eignarhlutar Hvals um 26,5 milljarðar króna.
Fram kemur í skýrslu stjórnar Hvals með nýbirtum ársreikningi að lagt verði til að greiða 1.500 milljónir króna í arð til hluthafa.
Aðrar helstu eignir Hvals eru hlutdeildarskírteini í innlendum og erlendum verðbréfasjóðum að fjárhæð 6,1 milljarð króna. Þá bætti Hvalur við hlut sinn í Arion á liðnu ári, sem er bókfærður á 6,5 milljarða króna, auk þess að fara með 0,33 prósenta hlut í Marel sem var metinn á 2,3 milljarða í lok september á árinu 2021. Frá þeim tíma hefur hins vegar hlutabréfaverð félaganna lækkað nokkuð – Marel um liðlega þriðjung og Arion banka um tólf prósent – og því hefur markaðsvirði þessara hlutabréfa fallið í virði.
Fjárfestingafélagið Hvalur var á meðal innlendra fjárfesta sem keyptu í líftæknilyfjafyrirtækinu Alvotech, sem undirbýr nú skráningu á markað hér heima og í Bandaríkjunum, í byrjun mars 2021 ásamt meðal annars Stefnir, TM og Lífeyrissjóði Vestmannaeyja. Fram kemur í ársreikningi Hvals að félagið hafi keypti í Alvotech fyrir um 515 milljónir króna.
Hvalur er eitt stöndugasta fjárfestingafélag landsins eftir að þáverandi dótturfélags þess, Vogun, seldi þriðjungshlut sinn í HB Granda vorið 2018 með um 13 milljarða hagnaði. Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Hvals, er stærsti einstaki hluthafi félagsins en hann fer fyrir 11,4 prósenta hlut í eigin nafni auk þess sem Fiskveiðihlutafélagið Venus, sem hann er í forsvari fyrir, er með 42,3 prósenta eignarhlut.
Hluthöfum Hvals fækkaði nokkuð á síðasta ári, eða úr 109 talsins í 88.
Fækkun hluthafa má rekja til þess að á árinu 2020 stefndu þrír hluthafar Hvals, sem réðu þá yfir rúmlega 5,3 prósenta hlut, félaginu og kröfðust þess að hlutir þeirra yrðu innleystir gegn greiðslu að fjárhæð samtals um 1.563 milljóna króna auk dráttarvaxta. Hluthafarnir voru félög í eigu feðganna Einars Sveinssonar og Benedikts Einarssonar og Ingimundar Sveinssonar. Sökuðu þeir Kristján um að hafa aflað „ótilhlýðilegra hagsmuna“ á kostnað annarra hluthafa með kaupum hans á hlutum í Hval á „verulegu undirverði“ og fráfalli stjórnar félagsins á að nýta forkaupsrétt sinn að þeim.
Með þessu hefði Kristján gerst brotlegur við ákvæði laga um hlutafélög og hluthafarnir ættu því rétt á innlausn samkvæmt tilteknu ákvæði sem kom fyrst inn í lögin árið 2010.
Samkvæmt dómi Héraðsdóms Vesturlands í marsmánuði 2021 var fallist á kröfu félaganna þriggja og Hval gert að innleysa bréf þeirra. Samanlagt innlausnarverð, að frádregnum arðgreiðslum, nam um 1.606 milljónum. Í kjölfarið bauðst öðrum hluthöfum að selja bréf sín á sama gengi – 165 krónur á hlut – og keypti félagið á grundvelli þess eigin bréf fyrir samtals tæplega 2,3 milljarða. Á hluthafafundi Hvals í maí sama ár var samþykkt að lækka hlutafé félagsins um sömu fjárhæð.