Jón Helgi Guðmundsson, aðaleigandi Norvik sem á meðal annars Byko, og Ingólfur Guðmundsson, forstjóri Carbon Recycling, gáfu hins vegar ekki kost á sér til endurkjörs en þeir hafa setið í stjórn Eyris um árabil.
Kristín, sem hefur verið sjálfstætt starfandi stjórnendaþjálfari og eigandi fyrirtækisins The Inner and Outer Game, var annar stofnenda fjármálafyrirtækisins Auðar Capital og þá var hún einnig meðal annars forstjóri Mentor á árunum 2015 til 2017.
Við þær breytingar sem hafa verið gerðar á stjórn Eyris Invest, sem er stærsta fjárfestingafélag landsins með yfir 130 milljarða króna í eigið fé um síðustu áramót í krafti fjórðungs eignarhlutar í Marel, hefur stjórnarmönnum félagsins fækkað úr sex í fimm talsins.
Þórður Magnússon, sem á samanlagt nærri 40 prósenta hlut í Eyri ásamt syni sínum Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marels, er eftir sem áður stjórnarformaður félagsins. Aðrir stjórnarmenn eru Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festa, Stefán Árni Auðólfsson lögmaður og Ólafur Steinn Guðmundsson fjárfestir. Bæði Hrund og Stefán Árni komu ný inn í stjórn Eyris á árinu 2021.
Á aðalfundi Eyris, sem fór fram 4. maí síðastliðinn, var tilkynnt um að stjórn félagsins hefði samþykkt að kaupa eigin bréf fyrir allt að 700 milljónir króna. Niðurstaðan var sú að félagið keypti samtals tæplega 7,4 milljónir bréfa að nafnvirði á genginu 94,9 krónur á hvern hlut.
Á síðasta ári nam hagnaður Eyris, sem skýrðist af matsbreytingu verðbréfa, rúmlega 162 milljónum evra, jafnvirði um 23 milljarða íslenskra króna. Heildareignir fjárfestingafélagsins námu 1.205 milljónum evra í árslok 2021 en þær samanstanda nánast einungis af 24,7 prósenta hlut Eyris í Marel. Hlutabréfaverð Marels hefur fallið um 28 prósent frá áramótum og hefur ekki verið lægra í tvö ár.
Auk þess að vera stærsti hluthafinn í Marel kemur Eyrir Invest að fjárfestingum í fjölmörgum sprota- og vaxtafyrirtækjum í gegnum félögin Eyrir Sprotar, Eyrir Venture Management og Eyrir Vöxt.