„Nýverið leiddu hækkanir á hráefni og umbúðum til þess að Ölgerðin sá sér ekki annað fært en að hækka verð innlendra framleiðsluvara um 5,9%, sem þó var minna en raunveruleg hækkunarþörf, en fjöldi aðfanga hafa hækkað um tugi prósenta síðustu misseri m.a. í kjölfar Covid-19,“ segir í skráningarlýsingunni.
Dæmi um aðföng sem hækkað hafa í verði á heimsvísu undanfarið eru korn, kolsýra, dósir, lok, bragðefni, plast, sykur, appelsínusafi og fleira. Þá hefur flutningskostnaður aukist töluvert.
Haldi hráefna- og afurðaverð áfram að hækka er ljóst að Ölgerðin mun þurfa að endurmeta verðlagningu
„Ölgerðin tók hluta af framkomnum hækkunum á sig í von um að hluti þeirra gangi til baka,“ segir jafnframt í skráningarlýsingunni. Þá er bent á að fram undan séu launahækkanir og að búist sé við enn frekari hækkunum frá ýmsum birgjum.
Ölgerðin á mörg af elstu og þekktustu vörumerkjum landsins á sínu sviði, til dæmis Egils Appelsín, Kristal, Egils Gull og Egils Malt, en tæplega helmingur af starfsemi félagsins er framleiðsla á eigin vörumerkjum. Auk þess er Ölgerðin með leyfi til þess að framleiða og selja vörur undir þekktum vörumerkjum frá fyrirtækjum Tuborg, Carlsberg Group og Pepsico.
„Haldi hráefna- og afurðaverð áfram að hækka er ljóst að Ölgerðin mun þurfa að endurmeta verðlagningu, en ljóst er að frekari hækkanir á hráefna- og afurðaverði auk neikvæðra áhrifa vegna verðbreytinga gætu haft neikvæð áhrif á rekstur og afkomu félagsins.“
Í hlutafjárútboði Ölgerðarinnar, sem hefst í byrjun næstu viku, verða seld 29,5 prósent af útgefnu hlutafé. Framleiðslufyrirtækið er verðmetið á 25 milljarða króna samkvæmt útboðsgenginu sem verður að lágmarki 8,9 krónur á hlut.
Stærstu eigendur fyrirtækisins eru framtakssjóðirnir Horn III, sem er í rekstri Landsbréfa, og Akur fjárfestingar, sem er í rekstri Íslandssjóða, með samanlagt um 43 prósenta hlut. Þá fer OA eignarhaldsfélag, sem er í eigu þeirra Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra Ölgerðarinnar, og Októs Einarssonar, stjórnarformanns, með rúmlega 16 prósenta hlut.