Viðskipti innlent

Lands­bankinn hækkar vexti á ó­verð­tryggðum lánum

Kjartan Kjartansson skrifar
Útibú Landsbankans í Austurstræti.
Útibú Landsbankans í Austurstræti. Vísir/Vilhelm

Vextir óverðtryggðra lána og sparireikninga hjá Landsbankanum hækka um 0,7 til eitt prósentustig á morgun. Bankinn vísar til þess að Seðlabankinn hafi hækkað vexti um eitt prósentustig fyrr í þessum mánuði. 

Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum hækka um 0,70 prósentustig og verða 5,40%. Fastir vextir óverðtryggðra íbúðalána hækka um 0,10-0,15 prósentustig. Engar breytingar verða á vöxtum á verðtryggðum íbúðalánum, hvorki breytilegum né föstum, að því er segir í tilkynningu á vef Landsbankans.

Kjörvextir á óverðtryggðum útlánum hækka um 0,70 prósentustig en kjörvextir á verðtryggðum útlánum verða óbreyttir. Breytilegir vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 0,70 prósentustig. Yfirdráttarvextir hækka um 1,0 prósentustig.

Vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka um allt að 1,0 prósentustig og vextir almennra veltureikninga hækka um 0,10 prósentustig.

Arion banki reið á vaðið og hækkaði sína vexti vegna vaxtaákvörðunar Seðlabankans í síðustu viku. Vextir bankans voru hækkaðir um á bilinu 0,61 til eitt prósentustig. Fjármálaþjónustan Auður hæakkaði sína vexti einnig um eitt prósent.

Enn sem komið er hefur Íslandsbanki ekki hækkað sína vexti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×