Skoðun

Jæja þá er partýið búið!

Yngvi Ómar Sighvatsson og Guðmundur Hrafn Arngrímsson skrifa

Græðgin getur stundum komið í bakið á fólki, er það ekki?

Nú síðustu 10 árin hafa fjármagnseigendur gengið sífellt harðar fram í okri á fátækasta fólki landsins og með því að skattleggja almenning í gegnum húsnæðisstyrki, en þeir renna beint í vasann þeirra og viðhalda sjálfdæmi í verðlagningu og okri. Okri sem á sem lítil sem engin takmörk og ávöxtun á fjármagni sem varla þekkist annarstaðar nema ef vera skyldi áhættusöm verðbréfaviðskipti.

Fáránleiki leigumarkaðarins

Við hjá samtökum leigjenda höfum síðasta hálfa árið bent ítrekað á fáránleika leigumarkaðarins og dregið fram margar sláandi staðreyndir um skaðleg áhrif hans.

  • Húsaleiga á Íslandi hefur hækkað um 104% á síðustu 10 árum en einungis um 15.3% á meginlandi Evrópu
  • Leiga hér er 80 til 100 þús krónum dýrari en ef miðað væri við fjármagnskostnað og húsaleiga sem hlutfall af kaupverði.
  • Í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við er lægri mánaðarlegur kostnaður að leigja en að kaupa. Á Íslandi bera leigjendur að meðaltali 40% hærri mánaðarlegan húsnæðiskostnað á við þá sem eru að kaupa.
  • Leiguþak eða viðmiðunarverð er mikið notað í Evrópu og samhliða því er sterkur óhagnaðardrifinn leigumarkaður. Hér er hvorugt.
  • Ávöxtun fjármagns lýtur ákveðnum skilyrðum sem vel er lýst í landslögum. Til dæmis stjórnar Seðlabankinn vaxtastigi í landinu. Ef þú hinsvegar ákveður að festa fé þitt í fasteign og leigja hana út þá eru þér enginn mörk sett varðandi það vaxtastig sem þú leggur á leigjandann, þú hefur uppi fullkomið sjálfdæmi og kemst upp með það því leigjandinn kemst ekki undan þér, hann verður að fá húsaskjól og heimili.
  • Græðgi og ásókn leigusala í íbúðir til að leigja út með stjarnfræðilegri álagningu er orðin slík að yfirgnæfandi meirihluta fasteigna sem bætast við markaðinn fara í þeirra hendur eignafólks og lögaðila. Þetta er farið að valda því að venjulegt fjölskyldufólk er ekki eingöngu að borga alltof hátt verð fyrir fasteign sem það vill eignast, heldur verður það æ oftar yfirboðið af fjársterkum aðilum sem sópa til sín fasteignum.
  • Það stendur í húsaleigulögum að leiguverð skuli vera sanngjarnt fyrir báða aðila, en það er óravegur frá því að svo sé. Það er ekkert sem tryggir sanngjarna og eðlilega verðmyndun á leigumarkaði.
  • Leigjendur á Íslandi búa við mikið óöryggi og í þessu hættulega ástandi með húsnæðisskort og síhækkandi leigu þá eru þeim setar ýmsar kvaðir mega t.d ekki fá gesti, sitja húsfundi, hafa ekki aðgang að ákveðnum rýmum í leiguhúsnæðinu, ekki hengja upp myndir og margt fleira.

Ófyrirleitin og skaðleg græðgi í skjóli yfirvalda.

Með þessari græðgi og ófyrirleitni hafa leigusalar gengið fram af almenningi. Núna hefur hátterni þeirra og skeytingarleysi gagnvart velferð leigjenda verið afhjúpað. Nú þegar almenningur er farin að átta sig á þessu óréttlæti og fjölmiðlar tekið eftir þá má búast við að stjórnmálamenn fari að bregðast við. Það má með sanni segja að ákveðið skapadægur sé runnin upp varðandi þessa hegðun. Leigusalar og þá sérstaklega stóru leigufélögin hafi skotið sig í fótinn með hömlulausu okri á fátæku fólki landsins. Þessir aðilar hafa athafnað sig undir trumbuslætti stjórnvalda í hringleikahúsinu og níðst á leigjendum. Nú er almenningi farið að blöskra, og ekki síst vítaverðu skeytingarleysi þeirra sem kjörnir eru til að stuðla að og verja velferð leigjenda.

Við gefum okkur að stjórnmálamenn hafi manngildi í heiðri í sinni pólitík, að þau séu fólk með samkennd sem vill réttlátt samfélag fyrir alla. Við gerumst meira segja svo djarfir að ætla að manngildi þeirra, réttlæti og heiður sé til leigjenda líka og þeirra velferð. Velferð leigjenda er umlukin verðmyndun á leigumarkaði og því gefum við okkur að fulltrúar leigjenda sem framfylgja húsnæðismálum í borgarstjórn og á alþingi vilji tryggja sanngjarna húsaleigu. Eina leiðin til að tryggja sanngjarna húsaleigu í núverandi ástandi er ,með því að setja leiguþak.

Viðmiðunarverð sem allir hagnast á

Viðmiðunarverð fyrir húsaleigu á að taka mið af fjármagnskostnaði fasteignaeiganda og hagnaði hans í formi eignamyndunar og hækkun á verðmæti. Þetta myndi ekki bara skila hér réttlátari leigumarkaði heldur einnig spara ríki og sveitarfélögum stórar fjárhæðir á ári. Beinn sparnaður yrði með því að útgreiðsla húsnæðisstyrkja myndi snarminnka og óbeinn sparnaður fælist bæði í bættum lífsgæðum leigjenda og með stórauknu neyslufé myndu þeir koma með innspýtingu í hagkerfið. Þeir peningar sem sparast hjá ríkinu gætu staðið undir því að byggja rúmlega 200 íbúðir á hverju ári. Leigjendur á íslenskum húsaleigumarkaði borga rúmlega 100 milljarða á ári í húsaleigu, sem er sama upphæð og kostar að byggja allar íbúðir á landinu á hverju ári líka.

Við erum ekki að stinga upp á að leigusalar borgi með húsnæðinu heldur væri þeim gert kleift að sækja um leigubætur ef sýnt væri fram á að kostnaður þeirra væri hærri en viðmiðunarverðið. Þannig gæti sá leigusali sem er með mjög skuldsetta eign geta sótt um stuðning, sem yrði svo aftur háður hagnaði hans í formi eignamyndunar og hækkandi húsnæðisverðs.

Við vitum að hagsmunasamtök ríka fólksins og auðmannaklíkunnar sem nýta sér neyð leigjenda koma að sjálfsögðu til með að berjast gegn öllum hugmyndum um viðmiðunarverð. Það munu þau gera með liðsinni þeirra stjórnmálaafla sem sjá leigjendur sem auðlind í fasteignabraski. Skeytingarleysið gagnvart leigjendum nær nefnilega langt inn í heim stjórnmála og þaðan er leyfunum deilt.

Úrtölur leigusalana og afhjúpun

Helstu rök þeirra sem sjá eingöngu meinbugi á því að tryggja velferð leigjenda með lækkaðri húsaleigu sé að þá gæti fækkað þeim sem vildu leigja út húsnæði. En hvernig skildi þeim hræðsluáróðri farnast ef við lítum til þeirra takmarkana sem nú þegar eru settar á vexti og útlán. Það þykir til dæmis mjög eftirsóknarvert að eiga banka hér á landi en samt er þeim skorður settar í vaxtakjörum, og því ekki setja skorður á vaxtakjör þeirra sem leigja út húsnæði ? Einnig mun koma til orðræða sem segir að leiga færist þá meir undir borðið og á svarta markaðinn. Við segjum á móti að þá þurfi slíkt athæfi að vera refsivert svo um munar og að auki væri hægt að setja fram hvata fyrir leigjendur svo þeir tilkynni slíkt, afslátt af leigu og aukin réttindi á leigutíma í kjölfarið.

Girðum okkur í brók og sköpum hér réttlátt samfélag fyrir alla. Það er bara ekki í boði að fjársterkum aðilum sé gert kleift að níðast svona á venjulegu fólki, það er þjóðhagslega óhagkvæmt og veldur þjóðfélaginu stórkostlegum skaða.

Höfundar eiga sæti í stjórn samtaka leigjenda á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×