Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Moody´s hefur í fyrsta sinn úthlutað Kviku banka Baa2 langtíma- og Prime-2 skammtíma- lánshæfiseinkunn í fjárfestingaflokki fyrir móttöku innstæða og útgáfu skuldabréfa.
Þetta kom fram í tilkynningu til Kauphallarinnar í gærkvöldi en þar segir að einkunnirnar séu með stöðugum horfum. Lánshæfiseinkunn Kviku, sem er sú fyrsta sem bankinn fær frá einu af alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækjunum, er sambærileg þeim sem stóru viðskiptabankarnir þrír eru með hjá hinum matsfyrirtækjunum.
Í tilkynningunni segir jafnframt að lánshæfismatsferli Kviku hófst í byrjun þessa árs í kjölfar birtingar á EMTN útgáfuramma samstæðunnar, sem gefur félaginu færi á að gefa út að jafnvirði 500 milljónum evra í mismunandi erlendum myntum á föstum og fljótandi vöxtum, og fyrstu skuldabréfaútgáfu bankans erlendis. Er lánshæfismatinu frá Moody´s ætlað að styðja við skuldabréfaútgáfu og aðra fjármögnun samstæðunnar.
Þá er ánægjulegt að sjá að Moody‘s minnist sérstaklega á tekjudreifingu félagsins sem mikinn styrkleika.
Í fyrsta skuldabréfaútboði Kviku banka á erlendum mörkuðum, sem fór fram í janúar síðastliðinn, sótti félagið sér 500 milljónir sænskra króna. Skuldabréfin voru til tveggja ára, báru fljótandi vexti og voru með 280 punkta álagi ofan á þriggja mánaða STIBOR-millibankavexti.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, segir í tilkynningu bankans að félagið sé „gríðarlega ánægt“ með þá staðfestingu sem felst í lánshæfiseinkunn Moody´s og hún sé góð viðurkenning á Kviku sem traustum útgefenda skuldabréfa og móttakanda innstæða.
„Lánshæfismatseinkunnin er mikilvægur hluti af þjónustu okkar og tengslamyndun við erlenda fjárfesta og gegnir stóru hlutverki í að lækka fjármagnskostnað, auka aðgengi að breiðari grunni fjárfesta og auka fjölbreytni í fjármögnun samstæðunnar. Þá er ánægjulegt að sjá að Moody‘s minnist sérstaklega á tekjudreifingu félagsins sem mikinn styrkleika, sem hvetur okkur enn frekar áfram í þeirri vegferð sem félagið hefur verið á síðastliðin ár,“ segir Marinó.
Í upphafi síðasta árs var sem kunnugt er lokið við samruna Kviku banka og tryggingafélagsins TM og í febrúar á þessu ári voru kaup Kviku á 80 prósenta hlut í breska lánafyrirtækinu Ortus kláruð en það félag er með lánasafn upp á um 20 milljarða króna. Með þeim kaupum mun lánastarfsemi Kviku sem hlutfall af heildareignum hækka í 35 prósent en í árslok 2020 var það 24 prósent. Kvika hefur sagt að það reiknar með að Ortus muni skila um 900 milljóna króna hagnaði árlega.
Hlutabréfaverð Kviku hefur verið undir þrýstingi á markaði á undanförnum mánuðum og hefur gengi bréfa félagsins lækkað um tæplega 30 prósent frá þeim tíma þegar stóð hvað hæst um miðjan nóvember í fyrra, mun meira en í samanburði við hina bankanna sem eru skráðir í Kauphöllina. Markaðsvirði félagsins hefur á þeim tíma minnkað um 38 milljarða. Gengi bréfa Kviku stendur nú í 20,5 krónum á hlut – var hæst 28,5 krónur á hlut þegar Stoðir, stærsti hluthafi félagsins á þeim tíma, seldi um þriðjung bréfa sinna – og hefur lækkað um rúmlega 23 prósent frá áramótum.
Hagnaður Kviku á síðasta ári nam 10,7 milljörðum, borið saman við 2,3 milljarða á árinu 2020, og var arðsemi á eigið fé um 35 prósent. Afkomuspá bankans fyrir þetta ár gerir ráð fyrir hagnað upp á 8 til 9 milljarða sem samsvarar 18,3 til 20,6 prósenta arðsemi á efnislegt eigið fé.
Kvika mun birta uppgjör sitt fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs eftir lokun markaða síðar í dag.