Innherji

Fjárfestingafélagið Eyrir Invest með um 130 milljarða í eigið fé

Hörður Ægisson skrifar
Þórður Magnússon, stjórnarformaður og stærsti hluthafi Eyris Invest.
Þórður Magnússon, stjórnarformaður og stærsti hluthafi Eyris Invest. VÍSIR/VILHELM

Fjárfestingafélagið Eyrir Invest, sem er meðal annars stærsti hluthafi Marels með tæplega fjórðungshlut, hagnaðist um rúmlega 162 milljónir evra, jafnvirði 23 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins í dag, á árinu 2021. Jókst hagnaður félagsins um 71 milljón evra á milli ára.

Heildareignir Eyris námu 1.205 milljónum evra í árslok 2021 og var eigið fé félagsins 919 milljónir evra, eða sem nemur um 130 milljörðum króna.

Hagnaður síðasta árs skýrist af matsbreytingu verðbréfa upp á 166,7 milljónir evra borið saman við 93,6 milljónir evra á árinu 2020. Hlutabréfaverð Marels hækkaði um liðlega 11 prósent í fyrra en það sem af er þessu ári hefur hins vegar gengi bréfa félagsins lækkað um meira en fjórðung.

Á aðalfundi Eyris Invest var samþykkt að greiða út arð til hluthafa að fjárhæð 10 milljónir evra og verður hann greiddur út 11. maí næstkomandi.

Stærstu eigendur Eyris Invest eru feðgarnir Þórður Magnússon, stjórnarformaður félagsins, og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, en þeir fara samanlagt með nærri 39 prósenta hlut. Aðrir helstu hluthafar fjárfestingafélagsins eru Landsbankinn, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verslunarmanna.

Fram kemur í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi félagsins að á síðasta ári hafi lánasamningur Eyris Invest við bandaríska bankann Citibank verið stækkaður úr 110 milljónum evra í 150 milljónir evra. „Kjörin sem félaginu bjóðast hjá Citibank eru hagstæðari en eru í boði á innlendum fjármagnsmarkaði. Með þessari lántöku er dregið úr endurfjármögnunaráhættu félagsins,“ segir í skýrslunni.

Þá tók Eyrir Invest jafnframt lán upp á 10 milljónir evra sem var nýtt til að fjárfesta í íslenska fyrirtækinu Carbon Recycling (CRI), sem vinnur metanól úr kolvísýringi, í gegnum eignarhaldsfélagið Grænu metanóli og fer það með 9 prósenta eignarhlut í CRI. Þá var gerður lánasamningur við Íslandsbanka að fjárhæð 20 milljónir evra sem ódregið var á í lok árs 2021. Vaxtaberandi skuldir Eyrir Invest námu 277 milljónum evra um síðastliðin áramót og er verðbréfaeign félagsins í Marel veðsett fyrir þeim skuldum.

Auk eignarhlutarins í Marel fer Eyrir Invest með 46,5 prósenta hlut í samlagshlutafélaginu Eyrir Sprotar, sem einbeitir sér að fjárfestingu og stuðningi við efnileg sprota- og vaxtarfélög með áherslu á alþjóðlegan vöxt. Þá er félagið Eyrir Venture Management í hundrað prósent eigu Eyrir Invest en það annars rekstur sjóða og félags sem það á fullu eða hluta. Þeir sjóðir og félag sem eru í umsjón EVM, fjárfesta í vaxtafélögum í samræmi við "Buy and Build" stefnu Eyris Invest sem félagið hefur fylgt frá stofnun.

Eignarhaldsfélagið Eyrir Ventures er sömuleiðis að fullu í eigu Eyris Invest og fjárfestir í vænlegum sprota- og vaxtarfyrirtækjum. Á árinu 2021 keypti Eyrir nýja hluti í Eyrir Ventures fyrir 7,4 milljónir evra.

Í skýrslu stjórnar Eyris Invest kemur sömuleiðis fram að félagið á síðasta ári stofnað ásamt völdum fagfjárfestum nýjan sprotasjóð, Eyri vöxt slhf., sem er ESG sjóður og fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum sem komin eru af frumstigi og horfa til þess að vaxa hratt alþjóðlega. Stærð Eyris vaxtar verður um 43 milljónir evra og hefur Eyrir Invest skráð sig fyrir 10,7 milljónum evra. Á árinu 2021 greiddi félagið 1,5 milljónir evra til Eyris vaxtar vegna þessarar fjárfestingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×