Skoðun

Efnum gefin loforð

Stefán Már Gunnlaugsson skrifar

Kjósendur hafa gjarnan á orði, að ekkert sé að marka loforð stjórnmálaflokka fyrir kosningar. Þeir standa sjaldnast við sín orð. Þetta hefur því miður laskað virðingu stjórnmálanna. Þessu þarf að breyta. En tæpast gerist það, þegar orð og efndir meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í Hafnarfirði eru skoðuð.

Á síðasta ári voru teknar við hátíðlega viðhöfn skóflustungur að reiðhöll hjá Sörla og knattspyrnuhúsi hjá Haukum. Það eina sem hefur gerst síðan þá er að mokað var aftur ofan í holurnar, og ekkert hefur gerst með frekari framkvæmdir. Nýjasta útspil bæjarstjóra var að lofa að útboð færi fram í lok apríl og ekkert gerðist. Og enn flæða loforðin úr búðum meirihluta Framsóknar-og Sjálfstæðisflokks nú í aðdraganda kosninga og táknrænt að loforðin eru nánast þau sömu og fyrir síðustu kosningar fyrir fjórum árum.

Fækkun íbúa

Dæmin um svikin loforð meirihlutans eru mörg á kjörtímabilinu. Uppbygging íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði hefur verið langt undir áætlunum sem sést m.a. af því að íbúum Hafnarfjarðar fækkað árið 2020 sem ekki hafði gerst í sögu bæjarins frá árinu 1939. Svo segir meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að bjart sé framundan í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, en því miður hefur fátt verið um efndir eins og allar tölur bera með sér.

Fyrirhyggjulaus sala eigna bæjarbúa

Það var eins og blaut tuska framan í íbúa bæjarins þegar meirihlutinn seldi hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum m.a. til vildarvina, að eigin sögn til að bjarga bæjarsjóði frá þroti. Er það til vitnis um ábyrga fjármálastjórn? Ekkert var fjallað um einkavæðingu og sölu innviða bæjarins í aðdraganda síðustu kosninga. Hvorki Framsókn né Sjálfstæðisflokkur höfðu það á stefnuskrá sinni. Kvikubanki sá um framkvæmdina með leynisamningi og ekki upplýst hve mikið var greitt fyrir umsýsluna. Þetta var keyrt í gegn af miklu offorsi og þrátt fyrir söluna hafa skuldir á hvern íbúa hækkað umtalsvert á kjörtímabilinu. Þetta minnir á einkavæðingu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á grunn-og leikskóla í Hafnarfirði árið 2000, sem jafnaðarmönnum tókst að forða með stórsigri í kosningum. Eigi að síður hvíla afleiðingar af þessu ævintýri enn þungt á bæjarsjóði með fjárhagslegum skuldbindingum. Reynslan er slæm og dýrkeypt, þar sem Sjálfstæðis-og Framsóknarflokkur hafa umsjón með einkavæðingu og sölu opinberra eigna, hvort sem er í Hafnarfirði eða á landsvísu.

Samráðsleysi eða samvinna og samráð

Svo gekk meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks með látum í það í fyrra að hafa leikskólana opna allt sumarið. Það var gert án alls samráðs og olli mikilli óánægju meðal starfsfólksins og kom niður á faglegu starfi leikskólanna, enda var fallið frá frekari áformum nú í sumar og opnunin dregin til baka. Þá hefur áhugaleysi meirihlutans að jafna kjör ófaglærðs starfsfólks innan leikskólanna verið algjört og höfnuðu m.a. tillögu Samfylkingarinnar um að almennt starfsfólk leikskólanna fengi að nýju greitt fyrir að matast með nemendum til þess að jafna kjör starfsfólks leikskóla í Hafnarfirði á við það sem gengur og gerist í nágrannasveitarfélögum.

Fólkið í bænum kvartar undan samráðsleysi. Stórar ákvarðanir eru teknar án þess að eiga samtal eða samvinnu við fólkið sem hlut eiga að máli. Það kemur m.a. fram í því að ekki er horfst í augu við vandann og fyrirspurnum er svarað seint og jafnvel ekki.

Hafnfirðingar vilja vera stoltir af bænum sínum og sögunni. Þeir vilja að velferðin blómstri, jafnræði sé í fyrirrúmi og þeir vilja öflugt menningar- og íþróttastarf með traustu atvinnulífi. Jafnaðarmenn í Hafnarfirði leggja áherslu á að standa við gefin loforð með fólkinu í bænum og hefja sókn til velferðar í Hafnarfirði. XS – Að sjálfsögðu.

Höfundur er í 5. sæti Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×