Innlent

„Auðvitað eiga menn að mæta sem best“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Eyþór Arnalds er að ljúka kjörtímabili sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg. Hann kveður sáttur.
Eyþór Arnalds er að ljúka kjörtímabili sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg. Hann kveður sáttur. vísir/vilhelm

Frá­farandi odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins segir að hver og einn borgar­full­trúi beri sjálfur á­byrgð á eigin mætingu á borgar­stjórnar­fundi en minnir á mikil­vægi þess að mæta sem best. For­seti borgar­stjórnar bendir á að kosninga­bar­átta falli ekki undir lög­mæt for­föll.

Það vakti mikla athygli í gær þegar fréttastofa greindi frá því að Hildur Björnsdóttir, sem leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í borginni fyrir næstu kosningar, hefði ekki mætt á borgarstjórnarfundi síðan um miðjan febrúar.

Var í prófkjörsbaráttu þegar hún hætti að mæta

Í sam­tali við frétta­stofu sagði hún kosninga­bar­áttuna vera á­stæðuna. Þessar skýringar koma Alexöndru Briem Pírata og for­seta borgar­stjórnar á ó­vart.

„Af því að fyrsta lagi þá var hún ekki búin í próf­kjöri fyrr en svona mánuði eftir að þetta tíma­bil hefst og í öðru lagi þá er hún ekkert í meiri kosninga­bar­áttu en ég eða Dóra eða Dagur eða Pawel eða Kol­brún eða Sanna,“ segir Alexandra og vísar þarna í borgar­full­trúa annarra flokka sem einnig standa í miðri kosninga­bar­áttu.

„Ég ætla samt að segja það til að allrar sann­girni sé gætt að Hildur hefur nú alveg verið að taka sæti í ráðs­fundum. Þó ég ætli kannski ekki að tjá mig sér­stak­lega um þátt­töku hennar á fundunum. Enda eru þetta lokaðir fundir,“ segir hún.

Alexandra Briem er forseti borgarstjórnar. Síðasti borgarstjórnarfundur kjörtímabilsins fór fram í gær. píratar

Það sé alvarlegt að borgarfulltrúar mæti ekki á fundi. 

„Auðvitað getur komið fyrir að fólk mæti ekki út af löglegum forföllum. En ég myndi ekki segja að kosningabarátta sé það nema í mjög öfgakenndu tilfelli og alveg örugglega ekki prófkjörsbarátta,“ segir Alexandra. 

Ætlar ekki að leggja mat á mætingu Hildar

Ey­þór Arnalds er frá­farandi odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins. Hann kveðst kveðja kjör­tíma­bilið sáttur og ætlar að snúa sér aftur að við­skiptum og tón­list. Hann sat síðasta borgar­stjórnar­fund kjör­tíma­bilsins í gær, sem sam­flokks­kona hans Hildur mætti ekki á.

„Síðasti borgarstjórnarfundurinn fyrir kosningar. Takk fyrir mig!“ sagði Eyþór og birti þessa mynd ásamt öðrum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að loknum fundinum í gær.Eyþór Arnalds

En hvað finnst honum um fréttir af mætingu hennar og gagn­rýni annarra á hana?

„Ég held það verði hver og einn að líta í eigin barm. Það ber hver og einn borgar­full­trúi á­byrgð á sinni mætingu og það geta verið lög­mæt for­föll fyrir því að fólk komist ekki á fundi og það er allur gangur á því hvernig menn hafa verið að mæta. Þannig að ég held að menn eigi ekkert að vera að kasta steinum úr gler­húsi heldur bara að horfa fyrst á fremst á hvernig þeir sjálfir hafa verið að standa sig,“ segir Ey­þór.

Spurður hvort það sé rétt sem Hildur segi að það sé rík hefð fyrir því hjá Sjálf­stæðis­mönnum að sá sem leiði lista fyrir kosningar taki sér hlé frá störum og kalli inn vara­mann segir Ey­þór:

„Það er mætingar­skylda nema lög­mæt for­föll séu og menn melda sig þá inn og fá vara­mann. En auð­vitað eiga menn að mæta sem best. Þarna er á­kveðið tíma­bil þar sem mætingin hefur kannski verið öðru­vísi heldur en fyrr á kjör­tíma­bilinu og þannig er það bara.“

Mæting borgarfulltrúa á fundi hefur verið í umræðunni síðan fram kom í fréttum í gær að oddviti Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum hefði ekki mætt á borgarstjórnarfund síðan um miðjan febrúar. Vísir/Vilhelm

Spurður hvort honum þætti kosninga­bar­átta flokkast undir lög­mæt for­föll sagði hann:

„Nú er hver og einn sem að þarf að til­kynna for­föll og kalla inn vara­mann þannig ég ætla ekki að meta ein­stök til­felli. Það er hver og einn sem ber á­byrgð á sinni mætingu.“

Var í svipaðri stöðu fyrir kosningar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið afar illa út úr skoðanakönnunum síðustu daga þar sem hann mælist í 21 prósenti sem væri mesti ósigur hans í borginni frá upphafi.

Sjálfur mældist listi Eyþórs um sex prósentustigum lægri á sama tíma fyrir kosningar en hann endaði í sjálfri kosningunni þegar Sjálfstæðisflokkurinn kom út sem stærsti flokkur í borginni með tæp 31 prósent. 

Hildur hefur sjálf kennt bankasölumáli ríkisstjórnarinnar um lélegt gengi flokksins í kosningabaráttu í borginni. 

Eyþór er ekki endilega sammála því:

„Ég held að sá samkvæmisleikur að finna blóraböggla gagnist mjög lítið í kosningabaráttunni. Ég held það sé miklu betra að horfa á hvaða valkostir eru - hvort að menn vilji áfram hafa þennan borgarstjórnarmeirihluta eða breytingar. Og ég hef alltaf litið á Sjálfstæðisflokkinn í borginni sem lykil að því að breyta í borginni og ég vona að kjósendur geri það líka,“ segir hann. 

En telur hann að Hildur geti rifið fylgið aftur upp á einni og hálfri viku?

„Hildur er ekki ein. Þetta er náttúrulega öflugur hópur og ef allir leggjast á árarnar og styðja framboðið þá er hægt að gera ótrúlega margt.“


Tengdar fréttir

Hildur ekki mætt á borgar­stjórnar­fund síðan í febrúar

Hildur Björnsdóttir leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borginni í komandi kosningum hefur ekki mætt á borgarstjórnarfundi í á þriðja mánuð. Hún segir annir í kosningabaráttunni vera ástæðuna. Fundur stendur yfir í borgarstjórn þessa stundina þar sem Hildur er fjarri góðu gamni.

Kannanir benda til mesta ó­sigurs Sjálf­stæðis­manna í borginni

Kannanir benda til sögu­legs ó­sigurs Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík þegar innan við tvær vikur eru til kosninga. Þá hefur flokkurinn aldrei mælst lægri í þjóðar­púlsi Gallups þar sem stuðningur við ríkis­stjórnina minnkar einnig veru­lega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×