Sport

Tveir skotnir eftir rifrildi á kappleik barna

Sindri Sverrisson skrifar
Byssumaðurinn og fórnarlömb hans voru áhorfendur á leik barna í ruðningi.
Byssumaðurinn og fórnarlömb hans voru áhorfendur á leik barna í ruðningi.

Tveir menn voru fluttir á sjúkrahús með skotsár eftir að þriðji maðurinn hleypti af byssu í kjölfar rifrildis á hliðarlínunni á kappleik í Virginíufylki í Bandaríkjunum í gær.

Um var að ræða leik barna í ruðningi við Benton-grunnskólann í Manassas.

Samkvæmt frétt TMZ var fjöldi barna á aldrinum 4-14 ára á svæðinu, ýmist að keppa eða á meðal áhorfenda, og alls voru nokkur hundruð manns viðstödd.

Lögregla var kölluð til eftir að hleypt var af skotfæri um klukkan 10.15 að morgni til. Hún leitar núna að skotmanninum sem mun hafa hlaupið í burtu af svæðinu en talið er að fórnarlömb skotárásarinnar muni lifa af.

Dean Ladson var einn af áhorfendunum á svæðinu en ellefu ára sonur hans var að keppa. Hann sagði við FOX 5 að atburðarásin virtist hafa hafist á orðaskiptum á milli manna.

„Maðurinn stóð jafnvel nær heldur en ég stend hjá þér núna og dró upp byssu,“ sagði Ladson við fréttamann. „Hann skaut hinn herramanninn og hljóp svo upp hæðina,“ sagði Ladson sem var vitaskuld feginn að engan af krökkunum á svæðinu skyldi saka. Hann sagði að syni sínum liði ágætlega:

„Móðir hans spurði hvernig hann hefði það og hann sagði að hann væri bara ánægður með að vera á lífi. Það er ansi hart að ellefu ára strákur skuli þurfa að segja það,“ sagði Ladson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×