Um­fjöllun og við­töl: Valur - Sel­foss 36-25 | Magnaðir Vals­menn stungu af í síðari hálf­leik

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Magnús Óli skoraði fimm mörk í kvöld.
Magnús Óli skoraði fimm mörk í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Í kvöld hófst undanúrslitaeinvígi Vals og Selfoss í úrslitakeppni Olís-deildar karla í handbolta í Origo höllinni. Lauk fyrsta leik liðanna í þessari rimmu með ellefu marka stórsigri Vals og liðið því komið með yfirhöndina í einvíginu. Lokatölur 36-25.

Leikmenn Vals komu inn í leikinn betur úthvíldir eftir átta daga frí, eftir að hafa sópað Frömurum auðveldlega úr leik í 8-liða úrslitum. Selfyssingar hins vegar léku sinn síðasta leik fyrir fjórum dögum gegn FH í tvíframlengdum oddaleik, og álagið því búið að vera gríðarlegt á leikmönnum Selfoss.

Selfyssingar hófu leikinn af gríðarlegum krafti og komust í 0-3 eftir fimm mínútna leik. Valsmenn áttu í stökustu vandræðum að koma boltanum fram hjá Vilius Rasimas, markverði Selfoss, en hann varði fjögur skot á fyrstu sex mínútum leiksins sem komu öll úr úrvals færum. Valur jafnaði þó leikinn á tólftu mínútu leiksins eftir hraðaupphlaupsmark Einars Þorsteins Ólafssonar.

Heimamenn í Val náðu tveggja marka forystu þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, staðan 11-9. Þannig flaut leikurinn áfram fram að lokaflauti fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik 16-14 Valsmönnum í vil, sem snéru leiknum með fimm marka sveiflu frá upphafsmínútunum fram að hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var ekki nema tveggja mínútu gamall þegar rautt spjald fór á loft eftir að dómarar leiksins höfðu kíkt í VAR-skjáinn. Tjörvi Týr Gíslason, línumaður Vals, hafði þá skellt Ragnari Jóhannssyni harkalega í gólfið.

Þetta rauða spjald hafði nákvæmlega engin áhrif á leik Vals. Liðið var komið í fimm marka forystu eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik, 23-18. Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, tók þá leikhlé. Það leikhlé breytti engu fyrir lið Halldórs Jóhanns og Valsmenn héldu áfram að breikka bilið með mikilli ákefð í sínum leik.

Selfoss spilaði sjö á sex í sókn síðustu tíu mínútur leiksins. Það hafði engin áhrif, leikurinn var tapaður. Heimamenn héldu áfram að keyra á bensínlausa Selfyssinga á lokakafla leiksins og unnu á endanum ellefu marka sigur, 36-25.

Af hverju vann Valur?

Betra lið er einfalda svarið, en það gekk einnig allt upp í leik liðsins í kvöld. Einnig spilaði þreyta sennilega risa þátt í því hvernig Selfyssingar misstu Valsmenn úr augsýn í síðari hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Bræðurnir Benedikt Gunnar og Arnór Snær Óskarssynir, leikmenn Vals, stóðu upp úr í kvöld. Skoruðu þeir samanlagt 17 mörk og lögðu samanlagt upp önnur átta mörk.

Hvað gekk illa?

Erfitt að klína þessu á eitthvað annað en hreinlega úthaldið hjá Selfyssingum, sem var hreinlega af skornum skammti í kvöld eftir strembið og langt einvígi gegn FH-ingum. Ekkert lið má eiginlega við því að vera ekki með batteríin full hlaðin gegn Val.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur í þessari rimmu fer fram klukkan 19:30 á fimmtudaginn í Set höllinni á Selfossi.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira