Marel skilaði enn einum metfjórðungi í mótteknum pöntunum sem námu 442 milljónum evra samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri sem birt var í gær. Tekjur í fjórðungnum voru 372 milljónir evra, á svipuðu róli og á fjórða fjórðungi en hækkuðu um 11 prósent á milli ára. Fyrirtækið glímdi aftur á móti við aukinn rekstrarkostnað vegna verðbólgu og áskorana tengdum aðfangakeðju.
Í hlutabréfayfirliti Jakobsson Capital er bent á að ávöxtun félaga á markaði hafi að meðaltali verið 38,3 prósent síðastliðna 12 mánuði en á sama tíma hefur Úrvalsvísitalan staðið í stað. „Það er gríðarlegur munur sem útskýrist af lækkun Marels undanfarið ár. Ljóst er að hærra aðfangaverð og hærri flutningskostnaður höfðu nokkur neikvæð áhrif á rekstur Marels,“ segir í yfirlitinu.
„Sömuleiðis þarf Marel […] að svara fyrir viðskipti sín í Rússlandi jafnvel þótt að lítil séu,“ segir greinandinn.
Marel rekur skrifstofu fyrir sölu og þjónustu í Rússlandi þar sem 70 manns starfa. Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu ákváðu stjórnendur Marel að setja nýjar fjárfestingar í Rússlandi á ís. Tekjur þaðan og frá Úkraínu nema um 4 prósentum af heildartekjum fyrirtækisins.
Fjöldi alþjóðlegra fyrirtækja hefur hins vegar dregið verulega úr umsvifum sínum í Rússlandi og í í yfirliti Jakobsson Capital er bent á að lífeyrissjóðir, sem hafa allir sett stefnu um samfélagslega ábyrgð, séu meðal stærstu eigenda Marel.
„Málið er augljóslega viðkvæmt og þögnin neyðarleg,“ segir greinandinn. „Á meðan þessari spurningu er ósvarað er líklegt að gengi Marels verði frekar undir þrýstingi til lækkunar. Í það minnsta myndu margir telja að erfitt væri fyrir lífeyrissjóðina að auka vægi sitt í félagi sem hefur ekki einu sinni dregið úr umsvifum.“
Hlutabréfaverð Marel hækkaði um tæplega fimm prósent í fyrstu viðskipum í morgun en eftir því sem leið á daginn dró úr hækkuninni sem endaði að lokum í 0,9 prósentum. Frá byrjun árs hefur gengið bréfanna lækkað um 18,4 prósent.
Marel greindi í gær frá undirritun samnings um kaup á bandaríska fyrirtækinu Wenger Manufacturing, sem er leiðandi á heimsvísu í framleiðslu á hátæknilausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein, og fóður fyrir fiskeldi. Heildarkaupverðið, sem verður greitt með reiðufé og lánalínum, er 540 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 70 milljarða íslenskra króna.
Kaupin eru sögð mikilvægt skref inn á nýja vaxtarmarkaði og mynda fjórðu tekjustoð Marels, til viðbótar við alifugla-, kjöt- og fiskiðnað. Gert er ráð fyrir að nýtt tekjusvið muni skila 10 prósent af tekjum og 12 prósent af sameiginlegri EBITDA-framlegð hjá sameinuðu félagi.