Skoðun

Egils­staða­flug­völlur – öryggisins vegna

Gauti Jóhannesson skrifar

Efling Egilsstaðaflugvallar er eitt af þeim verkefnum sem víðtæk samstaða er um á Austurlandi og unnið hefur verið að undanfarin ár á vettvangi SSA og Austurbrúar. Egilsstaðaflugvöllur hefur fjölmörg hlutverk. Hann er innanlandsflugvöllur fyrir þá byggð sem fjærst er höfuðborgarsvæðinu með öllu sem í því felst. Hann er millilandaflugvöllur fyrir farþegaflug, hann er 1. varaflugvöllur fyrir Keflavík og uppi eru væntingar í atvinnulífinu á Austurlandi um vöruflutninga um völlinn m.a. með ferskvöru á nýja markaði.

Mikil þróun hefur átt sér stað í atvinnulífinu á Austurlandi undanfarin ár með tilkomu nýrra greina s.s. fiskeldis sem og aukinni uppbyggingu ferðaþjónustu. Þá er unnið að hugmyndum að Orkugarði á Austurlandi þar sem m.a. yrði framleitt vetni. Þá eru uppi hugmyndir um nýtingu vindorku bæði á landi og úti fyrir strönd landshlutans. Sú uppbygging kallar á þyrluþjónustu með umfangsmikilli þjónustu í landi.

Öll ofangreind atriði undirstrika mikilvægi þess að sem fyrst verði mótuð framtíðarsýn og stefna um málefni vallarins í góðu samstarfi stjórnvalda, sveitarfélaga og atvinnulífs. Með því móti nýtist áhuginn og tækifærin sem í honum felast best til að efla atvinnulífið á Austurlandi, samfélagið og hagkerfið á landinu í heild.

Öllum er í fersku minni þau áhrif sem gosið í Eyjafjallajökli hafði á flugumferð á sínum tíma.

Undanfarnar vikur hefur greinst töluverð jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga og hafa íbúar á höfuðborgarsvæðinu fundið fyrir stærstu skjálftunum. Að áliti eldfjallafræðinga eru töluverðar líkur á eldgosi á Reykjanesi á nýjan leik á næstu mánuðum, nú þegar eldsumbrotum er lokið í Geldingadölum. (Mbl. 19.2.22) Slíku gosi gæti fylgt brennisteinsmengun, hraunflæði og öskufall allt eftir því hvar það væri staðsett en allt eins líklegt er að gosið gæti samtímis á mörgum stöðum.

Á Egilsstöðum er veðurfar flugi hagstætt og áreiðanleiki áætlunarflugs nær 99%. Í þessu ljósi er rétt að árétta en vanmeta ekki það öryggishlutverk sem flugvöllurinn þar hefur ef og þegar sú staða kemur upp að flugvellir á suðvesturhorninu verða óstarfhæfir til lengri eða skemmri tíma.

Sveitarstjórnarfólk á Austurlandi hefur gert sér grein fyrir þessu fyrir löngu og að þeirra frumkvæði, í samvinnu við Austurbrú, hefur ítrekað verið kallað eftir myndun starfshóps um verkefnið. Hann mun hafa það hlutverk að vinna að þarfagreiningu og framtíðarsýn fyrir Egilsstaðaflugvöll með það fyrir augum að fullnýta þá möguleika og öryggishlutverk sem hann hefur upp á að bjóða. Í starfshópnum er gert ráð fyrir að auk fulltrúa sveitarstjórnarstigsins af svæðinu verði fulltrúar frá ráðuneyti innviða, fjármála og ferðamála auk fulltrúa frá ISAVIA, SFS og SAF. Erindi þessa efnis voru send í viðeigandi ráðuneyti 20. mars sl. og beðið er svars.

Við höfum í gegnum árin haft tilhneigingu til að bregðast við hratt þegar skaðinn er skeður – að slökkva elda. Hér er tækifæri til að víkja af þeirri vegferð.

Höfundur er forseti sveitarstjórnar Múlaþings og varaformaður stjórnar Austurbrúar.




Skoðun

Sjá meira


×