Skoðun

Við­reisn vill fag­lega ráðinn bæjar­stjóra næsta kjör­tíma­bil

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Stærsta áskorun næsta kjörtímabils verður að koma rekstri Hafnarfjarðarbæjar í jafnvægi. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar skilar af sér þröngu búi þar sem reglulegar tekjur eru langt frá því að standa undir reglulegum útgjöldum. Sala eigna hefur staðið undir fjárfestingu og niðurgreiðslu lána, reksturinn stendur ekki undir sér. Það sem veldur mér enn meiri áhyggjum er sú bjargfasta trú fulltrúa meirihlutans um það að hér gangi allt í haginn og að miklum árangri hafi verið náði í rekstri Hafnarfjarðar á kjörtímabilinu. Það ber vott um algjöran skort á fjármálalæsi og í mínum huga fer ekki saman ábyrg fjármálastjórnun og torlæsi á fjármál. Það að selja eignir til að eiga fyrir launum og afborgunum lána er ekki hugmyndafræði til útflutnings.

Það er því mikilvægt að fá til starfans reynslumikla rekstrarmanneskju til að aðstoða okkur við að koma rekstrinum i gott horf. Hlutverk bæjarfulltrúa er tvíþætt að mínu mati, annars vegar að móta stefnuna og hins vegar aðhafa eftirlit með rekstrinum. Það er ekki hollt að hafa æðsta embættismann bæjarins kjörinn af meirihlutanum. Bæjarstjórinn verður að njóta trausts allra bæjarfulltrúa og vera ákveðið mótvægi við kjörna fulltrúa og tengiliður milli þeirra og embættismanna og starfsfólks bæjarins.

Hafnarfjarðarbær er að stórum hluta rekstrarfélag og það væri styrkur fyrir sviðsstjóra að hafa reynslumikla rekstrarmanneskju sem gæti stutt við þá með þekkingu og reynslu. Auðvitað kitlar það egóið að vilja verða bæjarstjóri, ég efst ekki um að metnaðarfullir oddvitar hafi vilja til þess. En við höfum ekki efni á því að kitla egóin, við verðum að hafa þá gæfu til að bera að ráða réttu manneskjuna í þetta lykilhlutverk.

Fyrsta skrefið í átt að ábyrgri fjármálastjórn er að átta sig á stöðunni, næsta skref er ráða til starfans reynslumikla rekstrarmanneskju í starf bæjarstjóra. Setjum bæjarfélagið í fyrsta sæti, almannahagsmunir eru í húfi.

Meiri fagmennsku, meiri skynsemi, meiri Viðreisn.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×