Handbolti

Tuttugu ár í dag frá því að Alfreð og Óli Stefáns brutu ísinn fyrir þýskan handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson og Stefan Kretzschmar fagna sigri með SC Magdeburg.
Ólafur Stefánsson og Stefan Kretzschmar fagna sigri með SC Magdeburg. Getty/ Alexander Hassenstein

Fyrir nákvæmlega tuttugu árum síðan þá varð SC Magdeburg fyrsta þýska liðið til að vinna Meistaradeildina í handbolta eftir sigur í tveimur leikjum á móti ungverska liðinu Veszprém. Aðalmennirnir hjá Magdeburg voru íslenskir, þjálfarinn Alfreð Gíslason og stórskyttan Ólafur Stefánsson.

Magdeburg tryggði sér titilinn með því að vinna seinna leikinn með fimm mörkum á heimavelli eftir tveggja marka tap í útileiknum. Seinni leikurinn fór fram 27. apríl 2002.

Ólafur átti alls þátt í 18 af 30 mörkum Magdeburg í seinni leiknum, skoraði 7 og átti 11 stoðsendingar að auki. Ólafur var alls með 16 mörk og 18 stoðsendingar í leikjunum tveimur á móti Veszprém.

Timarit.is/DV

„Óli er búinn að skila lykilhlutverki fyrir okkur í vörn og sókn og hann var líka í lykilhlutverki með íslenska landsliðinu á EM í janúar. Það er því ótrúlegt hvað hann er búinn að skila fyrir okkur alla í vetur þrátt fyrir þetta geysilega mikla álag. Óli er því án nokkurs vafa besti handboltamaður heims i ár. Ólafur hefur svo víðtækt hlutverk hjá okkur og þó svo að ég segi að hann og Stefan Lövgren séu bestir í heimi sóknarlega þá er Ólafur að skila í raun tvöföldu hlutverki í sókn og vörn og það er ekki hægt að líkja honum við neinn,“ sagði Alfreð við undirritaðan í viðtali í DV eftir leikinn.

Eftir ár skildu leiðir hjá þeim Alfreði og Ólafi. Ólafur fór til BM Ciudad Real og vann Meistaradeildina alls þrisvar sinnum með spænska liðinu.

Alfreð Gíslason tók fyrst við Gummersbach og varð síðan þjálfari Kiel frá 2008 til 2019. Undir stjórn Alfreð vann Kiel Meistaradeildina tvisvar og þýska meistaratitilinn sjö sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×