Innherji

Tryggir sér 32 milljarða fjármögnun til að mæta mögulegum innlausnum fjárfesta

Hörður Ægisson skrifar
Alvotech var stofnað árið 2013 af Róberti Wessman og er í meirihlutaeigu Aztiq, fjárfestingafélags sem Róbert leiðir.
Alvotech var stofnað árið 2013 af Róberti Wessman og er í meirihlutaeigu Aztiq, fjárfestingafélags sem Róbert leiðir.

Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech, sem undirbýr nú tvíhliða skráningu á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum og Íslandi sem verður að óbreyttu í næsta mánuði, hefur gengið frá samkomulagi við tvo bandaríska fjárfestingasjóði sem tryggir félaginu aðgang að fjármögnun fyrir allt að 250 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 32 milljarða íslenskra króna.

Í tilkynningu sem var send til bandaríska verðbréfaeftirlitsins (SEC) í gærkvöldi kemur fram að fjármögnunarlínunum sé ætlað að mæta mögulegu útflæði fjármagns ef hluthafar sérhæfða yfirtökufélagsins Oaktree Acquisition Corp. II, sem áformar að sameinast Alvotech við skráningu á markað, kjósa að innleysa bréf sín fyrir samrunann.

Félag í stýringu fjárfestingarsjóðsins Yorkville Advisors skuldbindur sig þannig til að kaupa hlutabréf af Alvotech þegar það verður komið á hlutabréfamarkað (e. Standby Equity Purchase Agreement) og íslenska fyrirtækið hefur á móti rétt til – en er ekki skuldbundið – til að selja bandaríska sjóðnum hlutabréf næstu þrjú árin. Með þessum samningi tryggir Alvotech sér aðgang að fjármagni fyrir allt að 150 milljónir dala.

Þá hefur vogunarsjóðurinn Sculptor Capital Management skuldbundið sig til að veita Alvotech lánalínu að fjárhæð 75 til 125 milljónir dala. Hversu mikið verður gengið á hana mun hins vegar ráðast af því fjármagni sem rennur til hins nýja félags við samruna Oaktree Acquisition Corp og Alvotech.

Áhrif þessara samninga eru að eyða óvissu og tryggja fjármögnun Alvotech óháð því hversu margir hluthafar hins sérhæfða yfirtökufélagsins ákveða að innleysa bréf sín fyrir samruna. Með samkomulaginu er einnig verið að auka „frjálst flot“ af bréfum í félaginu, er haft eftir Róberti Wessman, stjórnarformanni og stofnana Alvotech, í tilkynningu til verðbréfaeftirlitsins.

Þannig hefur Alvotech tryggt sér aðgang að því fé, samtals 250 milljónum dala, sem gert var ráð fyrir að rynni til félagsins við samrunann við Oaktree þegar tilkynnt var í desember síðastliðnum um fyrirhugaða skráningu á markað fyrir áramót. Því til viðbótar var í janúar á þessu ári gengið frá 175 milljóna dala hlutafjáraukningu, einkum frá erlendum stofnanafjárfestum, í gegnum lokað útboð þar sem verðmat á hvern hlut var tíu dalir.

Á meðal þeirra fjárfesta sem komu að hlutafjáraukningu Alvotech eru Suvretta Capital, Athos (fjárfestingafélag Strüngmann-fjölskyldunnar), CVC Capital Partners, Temasek, Farallon Capital Management, Sculptor Capital Management og íslenskur fjárfestahópur leiddur af Arion Banka, Landsbankanum og Arctica Finance.

Heildarvirði sameinaðs félags Alvotech og Oaktree, þegar búið er að taka tillit til þeirrar fjármögnunar sem Alvotech sótti sér í lok ársins, er áætlað 2,25 milljarðar dala en það verður skráð á markað í Nasdaq í Bandaríkjunum og á First North-markaðinn á Íslandi. Miðað við þann verðmiða, sem jafngildir 290 milljörðum króna, verður Alvotech þriðja verðmætasta félagið í Kauphöllinni á Íslandi – á eftir Marel og Arion banka.

Í verðmati sem bandaríski fjárfestingabankinn Northland Capital Markets gerði í lok síðasta mánaðar, og Innherji hefur áður fjallað um, var virði Alvotech metið á um 90 prósent hærra gengi, eða 4,3 milljarða dala, og var byggt á þeim á rekstraráætlunum sem félagið hefur kynnt fjárfestum og greinendum.

Samkvæmt verðmatinu er áætlað að heildartekjur Alvotech vegna sölu á líftæknilyfjum – félagið er með átta slík lyf í þróun – verði yfir einn milljarður dala eftir árið 2025, jafnvirði nærri 130 milljarða króna, en þær munu að langstærstum hluta koma til vegna sölu í Bandaríkjunum.

Á næstu árum renna mörg einkaleyfi líftæknilyfja út, sem skapar tækifæri fyrir fyrirtæki á borð við Alvotech til að setja sambærileg lyf á markað á mun lægra verði. Á árinu 2020 gerðu Alvotech og alþjóðlegi lyfjarisinn Teva Pharmaceuticals með sér samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu fimm hliðstæðu líftæknilyfja í Bandaríkjunum og er sá samningur sagður tryggja íslenska félaginu tekjur upp á hundruð milljarða á komandi árum.

Þar munar mest um hliðstæðu gigtarlyfsins Humira, sem er söluhæsta lyf heim og selst vestanhafs fyrir um 20 milljarða dala á ári, en hingað til hefur lyfjafyrirtækið Abbvie verið eitt um söluna.

Fyrr í þessum mánuði var tilkynnt um að Alvotech hefði náð samkomulagi við Abbvie sem veitir því almennan rétt til alþjóðlegrar markaðssetningar á líftæknihliðstæðulyfi við Humira sem fyrirtækið hefur þróað og er í hærri styrk og jafnframt útskiptanlegt án samráðs við lækna. Leyfið tekjur gildi í Bandaríkjunum um mitt næsta ár. Alvotech hefur átt í málaferlum við Abbvie en með samkomulaginu hefur verið leyst að fullu úr þeim ágreiningsmálum.

Að því gefnu að enginn af núverandi hluthöfum Oaktree Acquisition Corp. II nýti innlausnarrétt sinn þá munu núverandi hluthafar Alvotech eiga um 79 prósent í sameinuðu félagi, hluthafar Oaktree Acquisition um 11 prósent, og áðurnefndir fjárfestar, sem koma með nýtt fé inn í tengslum við sameininguna, um 8 prósenta hlut í félaginu við lokun viðskiptanna.

Áður en Alvotech verður skráð á markað, sem áætlanir gera núna ráð fyrir að geti mögulega orðið um miðan næsta mánuð, þurfa hluthafar Oaktree félagsins að samþykkja sameininguna. Þá munu þeir hafa um tvær vikur þar sem þeir eiga rétt á að innleysa fjárfestingu sína í SPAC-félaginu og fá hana greidda til baka í reiðufé í stað þess að fjárfesta í íslenska líftæknifyrirtækinu.

Óvíst er hversu hátt það innlausnarhlutfall verður af þeim 250 milljónum dala sem Oaktree hefur áformað að leggja Alvotech til en að meðaltali var innlausnarhlutfall slíkra félaga yfir 50 prósent í Bandaríkjunum á seinni hluta síðasta árs.

Í fyrra námu tekjur Alvotech um 40 milljónum dala. Rekstrartap (EBITDA) félagsins var hins vegar um 180 milljónir en þróunarkostnaður ársins var yfir 200 milljónir dala. Á þessu ári gera áætlanir ráð fyrir að tekjurnar verði á bilinu 85 til 155 milljónir dala en rekstrartapið verður sambærilegt og á árinu 2021. Samkvæmt áætlunum Alvotech verður það farið að skila rekstrarhagnaði á seinni hluta ársins 2023, skömmu eftir að félagið getur farið að selja inn á Bandaríkjamarkað.


Tengdar fréttir

Al­vot­ech eykur hluta­fé meira en áður hafði verið á­kveðið

Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech og sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Oaktree II tilkynntu í gær um fjárfestar hafi óskað eftir að skrá sig fyrir 21 milljón Bandaríkjadala til viðbótar í beinni hlutafjáraukningu Oaktree II í lokuðu útboði í tengslum við fyrirhugaða sameiningu fyrirtækjanna.

Alvotech reiknar með 100 milljarða króna tekjum árið 2025

Áætlanir Alvotech gera ráð fyrir að tekjur fyrirtækisins nemi 800 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 105 milljarða króna, á árinu 2025. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu sem íslenska líftæknifyrirtækið birti í dag samhliða tilkynningu um samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition og skráningu í bandarísku kauphöllina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×