Innherji

Helgi með nærri eins milljarðs króna hlut í Stoðum

Hörður Ægisson skrifar
Félagið Hofgarðar, sem er í eigu Helga, hagnaðist um 3,2 milljarða á síðasta ári eftir sölu á öllum hlut sínum í Bláa lóninu.
Félagið Hofgarðar, sem er í eigu Helga, hagnaðist um 3,2 milljarða á síðasta ári eftir sölu á öllum hlut sínum í Bláa lóninu. vísir/gva

Félag í eigu Helga Magnússonar, fjárfestis og aðaleigenda útgáfufélags Fréttablaðsins, DV og Hringbrautar, bættist við eigendahóp Stoða á seinni helmingi síðasta árs og er nú á meðal tíu stærstu hluthafa eins umsvifamesta fjárfestingafélags landsins.

Eignarhaldsfélagið Hofgarðar, sem er að fullu í eigu Helga, var í árslok 2021 skráð fyrir 1,72 prósenta hlut í Stoðum sem er metinn á tæplega 900 milljónir króna miðað við bókfært eigið fé fjárfestingafélagsins sem stóð þá í 51 milljarði króna. Helgi eignaðist bréfin í Stoðum, samkvæmt heimildum Innherja, sem hluta af greiðslu þegar Stoðir keyptu um 6,2 prósenta eignarhlut hans í Bláa lóninu undir lok ágúst á síðasta ári fyrir liðlega 3,5 milljarða króna.

Helgi hefur áður verið um skamman tíma í hópi hluthafa Stoða en félagið Hofgarðar var á meðal stórs hóps fjárfesta sem keyptu nítján prósenta hlut Arion banka um mitt árið 2019. Eignarhlutur Hofgarða í Stoðum, sem nam þá um 0,9 prósentum, var hins vegar seldur undir árslok 2020.

Auk þess að fá hlutabréf í Stoðum, sem hluta af greiðslunni fyrir eignarhlutinn í Bláa lóninu, fékk Helgi einnig meðal annars greitt með bréfum í Arion banka og Símanum. Félagið Hofgarðar hagnaðist um 3,2 milljarða króna á síðasta ári, sem skýrst einkum af hagnaði vegna sölunnar í Bláa lóninu.

Stoðir, sem skiluðu um 20 milljarða króna hagnaði á árinu 2021, eru stærsti hluthafi Símans og í hópi umsvifamestu eigenda skráðu félaganna Arion banka, Kviku og Play. Til viðbótar við kaupin í Bláa lóninu fjárfestu Stoðir í Landeldi á seinni helmingi síðasta árs, sem tryggði félaginu um þriðjungshluta í fiskeldisfyrirtækinu, og var á meðal hornsteinsfjárfesta sem komu að fjármögnun á nýju sérhæfðu yfirtökufélagi (SPAC), undir nafninu SPEAR Investments, sem var skráð á markað í Amsterdam síðastliðin nóvember. Á sama tíma minnkuðu Stoðir við eignarhlut sinn í Kviku um næstum þriðjung – úr 8,7 prósentum í 6,1 prósent – með sölu fyrir samanlagt um 3,5 milljarða króna en félagið var fyrir stærsti hluthafinn í bankanum.

Fjárfestingareignir Stoða, sem eru einkum eignarhlutir í skráðum fyrirtækjum, námu samtals 47,7 milljörðum króna í árslok 2021 og hækkuðu um 19 milljarða á milli ára. Handbært fé félagsins stóð í 3,3 milljörðum. Eigið fé Stoða hefur þrefaldast frá því í ársbyrjun 2019 og nemur nú um 51 milljarði króna en félagið er skuldlaust.

Fram kemur í skýrslu stjórnar Stoða í nýbirtum ársreikningi að félagið hafi á árinu keypt eigin bréf upp á 492 milljónir hluta að nafnvirði, fyrir samtals 1.434 milljónir króna. Þá seldi félagið á móti eigin bréf að nafnvirði 214 milljónir hluta, eða sem jafngildir um 1,72 prósenta eignarhlut, fyrir 803 milljónir króna. Eignarhlutur Stoða í sjálfum sér nam 0,85 prósentum í árslok 2021 en um mitt árið í fyrra var hlutafé félagsins lækkað um einn milljarð króna að nafnvirði.

Hluthöfum fjárfestingafélagsins fjölgaði úr 63 í 82 á liðnu ári. Á aðalfundi Stoða var samþykkt að greiða einn milljarð króna í arð til hluthafa félagsins.

Langsamlega stærsti eigandi Stoða er eignarhaldsfélagið S121 með tæplega 60 prósenta hlut. Þeir sem standa að því félagi eru meðal annars Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða og stjórnarformaður Símans, Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og stjórnarformaður Play, Magnús Ármann, Þorsteinn M. Jónsson og Örvar Kjærnested.

Aðrir helstu hluthafar Stoða eru sjóðir í stýringu Stefnis, sem fara samanlagt með rúmlega 9 prósenta hlut, og félagið Mótás sem á tæplega 6 prósenta hlut.


Tengdar fréttir

Jakob Valgeir og Helgi Magnússon fjárfesta í Skeljungi

Tvö félög á vegum Jakobs Valgeirs Flosasonar, útgerðarmanns og fjárfestis, bættust við hluthafahóp Skeljungs fyrr í þessum mánuði þegar þau keyptu samanlagt um 1,55 prósenta hlut sem skilar honum í hóp tíu stærstu eigenda fyrirtækisins.

Seldi í Bláa lóninu og keypti í Arion

Félag í eigu Helga Magnússonar, fjárfestis og aðaleigenda útgáfufélags Fréttablaðsins, hefur nýlega bæst við hluthafahóp Arion banka og heldur í dag á bréfum í bankanum sem eru metin á tæplega 700 milljónir króna að markaðsvirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×