Innherji

Vaxandi áhyggjur af netárásum birtast í kröftugum tekjuvexti Syndis

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Syndis.
Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Syndis.

Mikill tekjuvöxtur hjá Syndis, sem hefur ráðandi markaðshlutdeild í netöryggislausnum hér á landi, endurspeglar sívaxandi áhyggjur íslenskra fyrirtækja af netárásum. „Eftirspurnin hefur aukist mikið og við eigum eftir að sjá enn stærra stökk árið 2022,“ segir Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Syndis.

Tekjur Syndis, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins, námu 350 milljónum króna í fyrra og jukust um 111 milljónir frá árinu 2020. Aukningin nam því 47 prósentum milli ára. Áætlanir fyrirtækisins, sem er með á bilinu 80 til 85 prósenta markaðshlutdeild á Íslandi í tæknilegum úttektum að mati Valdimars, gera ráð fyrir 800 milljóna króna tekjum á þessu ári.

„Ef fyrirtæki, sem er ekki með samning ætlar að koma í úttekt hjá okkur þá erum við að tala um september eða október. Við erum algjörlega uppbókuð,“ segir Valdimar.

Upplýsingatæknifélagið Origo keypti Syndis í apríl í fyrra og sameinaði við sitt öryggislausnasvið. Eftir sameininguna voru starfsmenn orðnir 19 talsins en síðan þá hefur Syndis sett upp starfsstöð í Póllandi sem sinnir vöktun allan sólarhringinn og tryggir þannig betri viðbrögð við netárásum.

Valdimar segir að tekjuvöxtinn megi að miklu leyti rekja til vöktunarþjónustunnar – tvö af stærstu tölvukerfum landsins eru komin í sólarhringsvöktun hjá Syndis – og nú þegar ár er liðið frá sameiningunni hefur starfsmönnum fjölgað í 35. Kostnaður við aukin umsvif, einkum sameininguna við Origo, varð til þess að Syndis tapaði 31 milljón króna í fyrra en á árinu 2020 skilaði félagið 35 milljóna króna hagnaði.

Rússar munu ná vopnum sínum

Aukin áhætta vegna innrásar Rússa í Úkraínu er eitt af því sem knýr eftirspurn eftir  sólarhringsvöktun.

„Rússar voru duglegir í netárásum fyrir stríð en eftir að það hófst byrjuðu hópar á borð við Anonymous að herja á þá og hökkuðu þá raunar í tætlur. Rússar voru komnir í bullandi vörn við að verja sín kerfi – þú spilar ekki sókn á meðan þú ert í vörn – og netárásum fækkaði frekar en hitt en við sjáum aukningu á kortlagningu veikleika, það er að fyrirtæki eru skoðuð utanfrá með því markmiði að brjótast inn síðar,“ segir Valdimar.

„En ég held að það kunni að vera lognið á undan storminum. Rússar munu ná vopnum sínum og herja á óvinalönd. Einhvern veginn þarf að fjármagna þetta stríð og það er meðal annars gert með því að brjótast inn í tölvukerfi, dulkóða gögn og heimta lausnargjald.“

Rússar munu ná vopnum sínum og herja á óvinalönd.

Á árinu 2021 var fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands tilkynnt um 14 netárásir sem ollu þjónusturofi hjá fjármálafyrirtækjum og í nóvember síðastliðnum var umfangsmikil netárás gerð á greiðsluþjónustu Valitor og SaltPay. Í síðasta riti fjármálastöðugleikanefndar bankans var sagt nær öruggt að ógn vegna netárása á fjármálafyrirtæki á Íslandi færi vaxandi.

Seðlabankinn greindi frá því síðasta haust að unnið væri að uppbyggingu á innlendri og óháðri smágreiðslulausn sem væri án tengingar við alþjóðlega kortainnviði. Þrjú helstu greiðslumiðlunarfyrirtæki landsins hafa verið seld erlendum fyrirtækjum á seinustu tveimur árum og hefur Seðlabankinn bent á að innlend greiðslulausn og óháð greiðslulausn gæti nýst sem varaleið ef netárásir verða gerðar á greiðslumiðlunarfyrirtæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×