Íslenski boltinn

Íslandsmeistarar ekki tapað opnunarleik undanfarin fjögur ár

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Tekst Óla Jó að skrifa söguna upp á nýtt í kvöld?
Tekst Óla Jó að skrifa söguna upp á nýtt í kvöld? vísir/Getty

Besta deildin í fótbolta hefst í kvöld þegar ríkjandi Íslandsmeistarar Víkings fá FH í heimsókn í Víkina.

Sá háttur hefur verið hafður á efstu deildinni í fótbolta undanfarin fjögur ár að ríkjandi Íslandsmeistarar leiki opnunarleik mótsins.

Vanalega hafa Íslandsmeistararnir byrjað á heimavelli líkt og í kvöld nema árið 2020 þegar Íslandsmeistarar KR heimsóttu nágranna sína í Val í fyrsta leik mótsins og unnu sterkan 0-1 útisigur.

Öll hin árin hafa Valsarar verið ríkjandi Íslandsmeistarar.

Eins og sjá má hér að neðan hafa Íslandsmeistarar ekki tapað opnunarleik undanfarin ár og því spennandi að sjá hvort FH-ingar geti velgt Víkingum undir uggum í Víkinni í kvöld.

Opnunarleikir síðustu ára (Íslandsmeistarar ársins á undan feitletraðir)

  • 2021: Valur 2-0 ÍA
  • 2020: Valur 0-1 KR
  • 2019: Valur 3-3 Víkingur R.
  • 2018: Valur 2-1 KR

Eina skiptið sem Íslandsmeistarar hafa ekki hafið mótið ári síðar á sigri var árið 2019 þegar Valur og Víkingur gerðu 3-3 jafntefli í stórkostlegum leik að Hlíðarenda.

Þar öttu sömu þjálfarar kappi og verða á hliðarlínunni í kvöld þar sem Arnar Gunnlaugsson hóf þjálfaratíð sína með Víkingum í þessum epíska leik árið 2019 en Ólafur Jóhannesson, sem nú þjálfar FH, var þjálfari Vals 2019.

Leikur Víkings og FH hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport en upphitun hefst klukkan 18:30.

Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×