Erlent

Tveir táningar látnir og níu særðir eftir skotárás í partí

Samúel Karl Ólason skrifar
Rúmlega tvö hundruð manns voru í samkvæminu og þar á meðal mörg ungmenni.
Rúmlega tvö hundruð manns voru í samkvæminu og þar á meðal mörg ungmenni. AP/Gene J. Puskar

Tveir táningar eru látnir og níu eru særðir eftir skothríð í samkvæmi í Pittsburgh í nótt. Rúmlega tvö hundruð manns voru í teitinu þegar skothríðin hófst og margir þeirra undir lögaldri.

Nokkrir særðust til viðbótar við það að flýja húsið og fótbrotnuðu til að mynda tveir sem stukku út um glugga.

Lögreglan segir að allt að fimmtíu skotum hafi verið hleypt af á átta mismunandi stöðum í og við húsið þar sem samkvæmið var haldið. Skothylki sem hafa fundist eru samkvæmt AP fréttaveitunni bæði úr riffli og skammbyssu.

Fréttaveitan hefur eftir lögreglustjóra Pittsburgh að mikil ölvun hafi verið í samkvæminu.

„Þú ert með áfengi, ólögráða fólk og byssur. Það er hættuleg blanda á hvers konar viðburði og hér endaði það í harmleik,“ sagði John Fisher.

Engar handtökur hafa verið opinberar og lögreglan hefur þar að auki ekkert sagt um hvort einhverra sé leitað vegna árásarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×