Handbolti

Spilaði fyrsta landsleikinn í 816 daga: „Yndislegt að koma inn á“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Þrastarson skokkar inn á gólfið á Ásvöllum.
Haukur Þrastarson skokkar inn á gólfið á Ásvöllum. vísir/hulda margrét

Haukur Þrastarson lék í gær sinn fyrsta landsleik síðan 22. janúar 2020, eða í 816 daga, þegar Ísland vann Austurríki, 34-26, í seinni leik liðanna í umspili um sæti á HM 2023.

„Tilfinningin var mjög góð. Þetta er búinn að vera langur tími og það var yndislegt að koma inn á,“ sagði Haukur við Vísi eftir leikinn.

Hann kom inn á þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum, við mikinn fögnuð fjölmargra áhorfenda á Ásvöllum. 

„Að sjálfsögðu gaf það mikið. Það er gaman að spila fyrir framan þessa áhorfendur, loksins,“ sagði Haukur en Ísland hafði ekki spilað fyrir framan áhorfendur hér á landi í rúm tvö ár vegna kórónuveirufaraldursins.

Haukur hefur glímt við erfið meiðsli síðan hann fór út í atvinnumennsku til Kielce í Póllandi sumarið 2020. Hann segir að það hafi verið þungt að fylgjast með landsliðinu úr fjarlægð.

„Þetta var erfiður biti að kyngja. Maður vill alltaf vera með og þetta reyndi alveg á. En ég er glaður að vera kominn aftur,“ sagði Haukur.

Hann segist óðum vera að nálgast fyrri styrk. „Þetta er allt að koma núna. Eftir áramót hef ég verið góður í skrokknum og gengið vel. Ég nýtti hléið í janúar mjög vel og eftir að ég kom til baka hefur gengið vel og ég er alltaf að skrefi nær mínu gamla formi,“ sagði Selfyssingurinn að endingu.


Tengdar fréttir

„Fékk gæsahúð mörgum sinnum“

Guðmundur Guðmundsson var hæstánægður eftir að Ísland tryggði sér sæti á HM með átta marka sigri á Austurríki, 34-26, í seinni leik liðanna í umspili í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×