Erlent

Lentu eftir lengstu geimferð Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Lendingarfarið sem geimfararnir þrír notuðu.
Lendingarfarið sem geimfararnir þrír notuðu. AP/Peng Yuan

Þrír kínverskir geimfarar lentu á jörðinni í morgun eftir að hafa varið hálfu ári um borð í nýjustu geimstöð Kína. Þar með luku þeir lengstu mönnuðu geimferð ríkisins hingað til.

Þau Wang Yaping, Zhai Zhigang og Ye Guangfu settu nokkra áfanga í geimferðinni. Þar á meðal náði Wang þeim árangri að verða fyrsta kínverska konan til að fara í geimgöngu. Þremenningarnir vörðu tíma sínum um borð í Tiangong, eða Himnesk höll, í framkvæmdum við geimstöðina og rannsóknarvinnu.

Tiangong er þriðja geimstöð Kína en þeirri fyrstu var skotið á loft árið 2011 og annarri árið 2016.

Fyrsta hluta geimstöðvarinnar var skotið á loft í apríl 2021 og stendur til að bæta tveimur hlutum við á þessu ári. Samkvæmt AP fréttaveitunni liggur þó ekki fyrir hvenær það á að gerast né hvenær næstu áhöfn geimstöðvarinnar verður skotið út í geim.

Geimfararnir þrír lentu í Innri Mongólíu í morgun og eru allir sagðir við góða heilsu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×