Skoðun

Krefjumst að­gerða vegna Suður­fjarðar­vegar

Guðbjörg Sandra Óðinsdóttir Hjelm og Bryngeir Ágúst Margeirsson skrifa

Hinn mikilvægi en hættulegi Suðurfjarðarvegur liggur um suðurhluta Fjarðabyggðar, sem sameinar Breiðdalsvík, Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð, Reyðarfjörð, Eskifjörð, Neskaupstað og Mjóafjörð. Nauðsynleg uppbygging vegarins hefur verið til umræðu í Fjarðabyggð frá því að elstu menn muna og efalítið lengur. Lítið hefur þokast málum og vorum við sem og margir íbúar Suðurfjarða Austurlands slegnir að sjá að áætlun endurbóta er ekki fyrr en árið 2032!

Fagnaðarefni var því að sjá tillögu að þingsályktun Njáls Trausta Friðbertssonar og Berglindar Óskar Guðmundsdóttur, þingmanna Sjálfstæðisflokksins, um að flýta uppbyggingu Suðurfjarðarvegar. Vegkaflinn frá Breiðdalsvík að Fáskrúðsfirði er talinn sá hættulegasti samkvæmt úttektum EuroRap, samtaka um gæðamat á vegakerfi Evrópu. Einbreiðar brýr eru börn síns tíma og eiga ekki að tilheyra nútíma samfélagi og á vegakaflanum eru þrjár slíkar, þar með talið brúin yfir Sléttuá á Reyðarfirði sem ber þyngsta umferð einbreiðra brúa á Austurlandi. Yfir hana komast ekki stór vinnutæki og þurfa að bíða eftir vaði í ánni til að ferðast á milli fjarða.

Eykur það vandann að farsímasamband er þar mjög slitrótt, og því meiri hætta á manntjóni við slys á þessum vegi.

Í greinagerð áðurnefndrar þingsályktunartillögu kemur fram að umferðarþungi hefur þar stóraukist síðustu ár og mun halda áfram með kraftmikilli uppbyggingu Fjarðabyggðar. Vegurinn er lykilatriði í sameinaðu sveitarfélagi. Skólaakstur frá Breiðdalsvík til Stöðvarfjarðar er hluta vikunnar. Íbúar á suðurfjörðum Fjarðabyggðar sækja þjónustu, atvinnu, félagsstarf og íþrótta- og æskulýðsstarf fara um þennan slæma veg daglega.

Við getum aldrei starfað sem ein heild meðan sveitarfélagið er slitið í sundur með þessum hættulega vegi. Við þurfum sem samfélag að vera dugleg að minna á þetta og krefjast þess að uppbyggingunni verði flýtt.

Sjálfstæðisflokkurinn í Fjarðabyggð mun ekki þagna varðandi uppbyggingu Suðurfjarðarvegar. Hann krefst endurbóta, kjósum Sjálfstæðisflokkinn í Fjarðabyggð.

Guðbjörg Sandra Óðinsdóttir Hjelm, Fáskrúðsfirðingur, og skipar 7. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.

Bryngeir Ágúst Margeirsson, Stöðfirðingur, og skipar 9. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×